„Þetta var náttúrulega bara íslensk afmeyjun,“ segir Elísabet Jökulsdóttir um fyrstu kynlífsreynslu sína í þættinum Undir yfirborðið í kvöld.
„Hann var fullur og ég gáði hvort það væri blóð í lakinu, hann sofnaði strax á eftir og hefur eflaust ekki munað hver ég var.“
Í þessu hispurslausa og heiðarlega viðtali lýsir Elísabet því hvernig móðir hennar hafi barið hana þegar hún kom heim eftir að hafa sofið hjá í fyrsta skiptið. „Hún sló mig utanundir og reif í hárið á mér og kallaði mig druslu og lufsu“.
Þær Ásdís ræða þetta ofbeldisfulla mæðgnasamband sem Elísabet lýsir í nýju bókinni sinni, Saknaðarilmur, þær ræða ritsnilldina, einlægnina, geðveikina, þráhyggjuna, skömmina, þrá Elísabetar eftir ást og athygli, söknuðinn, fyrirgefninguna og sáttina.
Fylgist með í kvöld kl. 19:30 og 21:30 á Hringbraut. Hér að neðan má sjá klippu úr þættinum.