Sena Live sendi í morgun miða­höfum á tón­leikana með tón­listar­manninum Ed Sheeran tölvu­póst sem í voru leið­beiningar um næstu skref vegna tón­leikanna. Þar má meðal annars finna upp­lýsingar um hvað þarf að gera til að inn­rita sig á tón­leikana en til þess þurfa allir að ná í pappírs­miða, að því er kemur fram í tölvu­póstinum.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá munu tón­listar­mennirnir James Bay, Zarah Lars­son og Glowi­e hita upp fyrir tón­leikana sem munu fara fram þann 10. ágúst og 11. ágúst. Upp­selt er á fyrri tón­leikana en enn eru til miðar á þá seinni.

Í tölvu­póstinum sem sendur var miða­höfum í morgun segir eins og áður hefur komið fram að til að komast inn á tón­leikana þarf að inn­rita sig. Í póstinum segir að til þess þurfa allir að ná í svo­kallaða pappírs­miða. Til að ná í þá þarf að sýna kvittun fyrir miða­kaupum og skil­ríki sem stemma. Um­rædd kvittun var send raf­rænt til kaup­enda þegar miðarnir voru keyptir og er nóg að sýna hana á raf­rænu formi.

Miða­hafar beðnir um að sækja miða í Ed Sheeran búðina á á­kveðnum tímum

Á morgun verður opnuð Ed Sheeran búð á 2. hæð í Kringlunni, beint á móti Bónus. Í póstinum kemur fram að þangað skuli fara til að nálgast pappirsmiðana en með­ferðis þarf að hafa kvittunina og skil­ríki.

„Þú getur inn­ritað þig inn á tón­leikana með pappírs­miðana, kvittunina og skil­ríki við hönd. At­hugaðu að ef þú keyptir fleiri en einn miða getur þú sótt pappírs­miðana fyrir allan hópinn í búðinni en þegar að tón­leikunum kemur þurfa allir tón­leika­gestir í sömu pöntun að fara inn á tón­leika­svæðið á sama tíma, nema ef farið er í snemminnritun,“ að því er segir í póstinum.

Þar er jafn­framt tekið fram að hægt sé að sækja pappírs­miðana á tón­leikunum sjálfum frá klukkan 16:00 en Sena mælir með því að miðarnir séu sóttir fyrir­fram til að forðast raðir og bið­tíma á tón­leika­dag.

„Til að þetta gangi sem hraðast fyrir sig þá biðjum við miða­hafa að sækja miðann sinn á eftir­farandi tímum í Ed Sheeran búðina í Kringlunni:

- Sitjandi miðar, fyrri tón­leikar: fimmtu­daginn 18. júlí

- Standandi miðar, fyrri tón­leikar: föstu­daginn 19. júlí

- Sitjandi miðar, seinni tón­leikar: laugar­daginn 20. júlí

- Standandi miðar, seinni tón­leikar: sunnu­daginn 21. júlí

At­hugið að búðin er opin á venju­legum opnunar­tímum Kringlunnar til 11. ágúst og miðarnir verða til staðar þegar þú sækir þá, þannig að þú þarft ekki endi­lega að koma fyrstu dagana, það er nægur tími til stefnu.“

Mæla með snemminnritun fyrir þá sem eru með fleiri en einn miða

Þá kemur líka fram í tölvu­póstinum að þeim sem vilji spara sér tíma sé boðið að fram­kvæma svo­kallaða snemminnritun (e. ear­ly check-in). Það er gert með því að mæta frá kl. 12:00 á tón­leika­dag í Laugar­dals­höll á svo­kallað að­dá­enda­svæði, þar sem mætt er með pappírs­miðana sem sóttir voru í Ed Sheeran búðina.

Þá fær við­komandi og hans gestir arm­band. Segir að þeir sem eru með fleiri en einn miða ættu sér­stak­lega að nýta sér snemminnritun því þá þarf ekki allur hópurinn að labba inn á tón­leika­svæðið á sama tíma. Hafi við­komandi slíkt arm­band er það það eina sem þarf að sýna við inn­gang á tón­leika­staðinn, í stað skil­ríkis, kvittun eða miða aftur.

Á svæðinu verður hægt að kaupa mat, drykk og Ed Sheeran varning auk þess sem hægt verður að njóta skemmti­at­riða og hita upp fyrir tón­leikana.

„Svona mælum við með með að fólk geri þetta:
1. Sæki pappírs­miðana sína í Ed Sheeran búðina í Kringlunni frá 18. júlí (muna skil­ríki og kvittun).
2. Inn­riti sig í snemminnritun í Laugar­dals­höll á tón­leika­dag frá kl 12:00 og fái arm­band sem gerir öllum í hópnum kleift að fara inn á völlinn þegar hverjum og einum hentar, eftir að hann opnar kl. 16:00.“

Þá hefur Sena jafn­framt sett upp vef­síðu þar sem má sjá helstu spurningar og svör til handa tón­leika­gestum um ýmis at­riði varðandi tón­leikana.