Í AIŌN bjóða Erna Ómarsdóttir danshöfundur og Anna Þorvaldsdóttir tónskáld áhorfendum upp á heim þar sem tónlist og dans mætast á óvanalegan hátt og dansarar Íslenska dansflokksins og hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitarinnar renna saman í eitt á sviðinu.

Íslenski dansflokkurinn frumsýndi AIŌN í Gautaborg í maí 2019 með Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar. Flutningurinn hlaut frábærar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda, en í umfjöllun Dagens Nyheter er flutningnum lýst sem „eins konar náttúruafli“ og í þýska tímaritinu Die Presse var AIŌN sagt vera „sönnun þess hve tónlist og hreyfing eiga vel saman … tónlistin og dansararnir renna saman í eina heild.“

Óvenjulegur samruni

„Þetta er mjög sérstakt verk þar sem við blöndum saman sinfóníuhljómsveit og danshóp sem renna saman í eitt. Hljómsveitin er hluti af dansinum og dansinn er hluti af tónlistinni. Ég vinn mikið með sinfóníuhljómsveitum en það er mjög óvenjulegt að hafa svona samruna á sviði, hljómsveitir eru vanari að vera einar á sínum reit,“ segir Anna.

Erna og Anna deila áhuga á abstrakt list.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Það má segja að hljóðfærið sé framlenging á líkama hljóðfæraleikarans en þarna koma dansarar og ryðjast inn í þetta heilaga pláss. Hljóðfæraleikararnir voru miklu opnari fyrir þessu en við áttum von á. Þetta hefur verið spennandi óvissuferð,“ segir Erna.

Um hvað fjallar AIŌN, er eiginlegur söguþráður í verkinu?

„Við Erna deilum áhuga á abstrakt list og vinnum báðar með abstrakt form, ég í tónlist og hún í dansi,“ segir Anna. „Grundvallarhugsunin í verkinu eru hugleiðingar um tímann, eilífðina og æviskeiðið og það að maður geti farið á milli tímabila á ævinni, ekki í gegnum minningar heldur bókstaflega með því að fara þangað. Baráttan og togstreitan sem felst í því að átta sig á að þetta sé hægt endurspeglast í verkinu. Þegar maður hefur náð sáttum við það getur maður valið hvert maður vill fara: vill maður alltaf fara á sama staðinn eða vill maður fara oft á ákveðinn stað og aldrei á annan stað. Titillinn AIŌN vísar í eilífðina og æviskeið.“

Í annarri vídd

Anna tók sér góðan tíma, um eitt og hálft ár, til að semja tónlistina sem tekur rúmar 50 mínútur í flutningi. „Ég skilaði tónlistinni tilbúinni í janúar 2019 og þá fór Erna að vinna dansinn. Við Erna vorum reglulega í hugmyndafræðilegu samtali. Við eigum svo fallega listræna samleið og tónlistin er innblásin af orkunni frá Ernu. Tónlistin skiptist á að vera kraftmikil og blíð. Það er togstreita í henni og ákall á svar, eins og er í þeim tilfinningarússíbana sem sinfónísk tónlist er.“

„Dansinn var saminn í samvinnu við dansarana. Innblásturinn var tónlistin og samtal okkar um þær tilfinningar og hugmyndir sem tónlistin skapar. Þetta er mjög líkamleg tónlist og það er mjög innblásandi að dansa við hana. Ég hafði leikið mér við að dansa við tónlistina hennar Önnu áður, þannig að það var frábært að fá að vinna með henni. Fyrir okkur dansarana var vinnan í þessu verki eins og að komast inn í aðra vídd. Þetta er lifandi verk og þar þurfa allir að spila saman,“ segir Erna.