Systur fluttu lag sitt Með hækkandi sól rétt í þessu í lokakeppni Eurovision. Svo virðist sem landinn sé ansi ánægður með flutning systinanna, ef marka má samfélagsmiðilinn Twitter.

Fjöldi Íslendinga hefur þegar tjáð sig um þær og virðast viðbrögðin fyrst og fremst vera jákvæð. Til að mynda segir Katrín Jakobdsóttir forsætisráðherra að þær hafi staðið sig stórkostlega og að um hafi verið að ræða gæsahúðarflutning. Og þá sagði Dagur B Eggertsson borgarstjóri, sem mun eflaust fljótlega þurfa að skipta yfir á kosningasjónvarpið, að þær hefðu staðið sig óaðfinnanlega.

Líkt og áður segir tjáðu talsvert fleiri sig um flutning þeirra, og voru viðbrögðin næstum því alfarið jákvæð.