Miklar líkur eru á því að kvikmyndin Everything Everywhere All At Once verði verðlaunuð sem besta mynd síðasta árs á Óskarsverðlaunahátíðinni, ef marka má stuðla veðmálafyrirtækisins DraftKings.

Rúmlega sextíu prósent líkur eru á því að myndin hreppi hnossið samkvæmt stuðlunum, og næst líklegust er The Banshees of Inisherin og þar á eftir Top Gun Maverick.

Leikstjórar Everything Everywhere All At Once, Daniel Kwan og Daniel Scheinert, þykja einnig langlíklegastir til að fá verðlaun fyrir bestu leikstjórn, eða tæplega sextíu prósent, en næst líklegastur er Steven Spielberg fyrir mynd sína The Fabelmans.

Cate Blanchett er líklegust til að vinna verðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki, fyrir kvikmyndina Tár. Og næst líklegust er Michelle Yeoh sem lék í áðurnefndri Everything Everywhere All At Once.

Brendan Fraser og Austin Butler þykja líklegastir til að berjast um verðlaunin fyrir besta leikara í aðalhlutverki. Fraser, sem þykir ívið líklegri, fyrir endurkomu sína í The Whale og Butler fyrir túlkun sína á konungi rokksins í Elvis.

Um það bil níutíu prósent líkur eru á því að Ke Huy Quan verði verðlaunaður fyrir leik sinn í aukahlutverki í Everything Everywhere All At Once. Angela Bassett, í Black Panther: Wakanda Forever, og Kerry Condon, í The Banshees of Inisherin, eru líklegastar til að fá verðlaun sem besta leikkona í aukahlutverki.