Ís­lenskir net­verjar hafa keppst við það í dag og í gær að velta fyrir sér hvaða furðu­veru Vig­dís How­ser Harðar­dóttir fangaði á mynd­band við Detti­foss í gær. Frétta­blaðið tók saman nokkrar af helstu kenningum net­verja og virðast lesendur ósammála um það hvort hér sé á ferðinni jarðneskt eða yfirnáttúrulegt fyrirbæri.

Mynd­bandið má sjá í frétt vefsins frá því í gær­kvöldi. Í sam­tali við Frétta­blaðið í gær sagði Vig­dís að hún héldi því ekki fram að hún hefði fangað eitt­hvað yfir­náttúru­legt á mynd­band. Það væri þó einkar at­hyglis­vert enda að­stæður með því móti að ó­mögu­legt sé fyrir fólk að klöngrast þar.

Það er ekkert þarna fyrir neðan,“ segir Vig­­dís og bætir við að hún sé búin að heyra ýmis­­legt. Að þetta hafi verið svart­álfur eða jafn­vel ein­hvers­­konar djöfull. Hún segir að um 10 manns hafi verið á svæðinu, flestir á út­sýnis­palli rétt hjá, en hún og kærasti hennar hafi farið nær fossinum þar sem hann hafi meðal annars tekið myndir. „Ég súmmaði svona inn og var ekkert að pæla í hvað ég væri að gera,“ segir Vig­dís.

Myndbandið má sjá hér.

Hrafnar eða önnur dýr?

Séu um­mæli við frétt Frétta­blaðsins skoðuð á Face­book má sjá að net­verjar virðast flestir á nokkuð svipuðum skoðunum um furðu­veruna. Þannig virðast margir halda að þarna sé á ferðinni ein­hvers­konar dýr.

Skjóta afar margir til að mynda á að þarna séu krummar á ferðinni. „Þetta eru tveir krummar, einn alveg vinstra megin í mynd og annar sem virðist vera "furðu­vera",“ skrifar einn les­enda Frétta­blaðsins. „Ein­hver fugl?“ spyr annar. Aðrir skjóta á rjúpu eða leður­blöku.

Aðrir les­endur eru þess full­vissir um að hér sé á ferðinni ein­hvers­konar annað dýr. Þannig segja nokkrir að hér hljóti Vig­dís að hafa fangað lamb og/eða hrút á mynd. Nokkrir telja að þetta hafi verið minkur.

Var þetta bara krummi?
Fréttablaðið/Stefán

Mynda­vél eða dróni?

Flestir les­endur Frétta­blaðsins virðast sann­færðir um að Vig­dís hafi fest á mynd mann með mynda­vél, sem jafn­vel sé föst á þrí­fóti. Hún hafi fangað kollinn á manninum í síðasta hluta mynd­skeiðsins.

Fjölda­margir skrifa þau um­mæli undir fréttina og ein­hverjir benda á að það sé vissu­lega hægt að komast þangað niður, þó það sé hættu­legt. „...þetta er þrí­fótur fyrir mynda­vél...sést líka glitta í kollinn á dökk­hærðum manni í lokin #just­sa­yin,“ skrifar einn net­verja og fær fyrir það sex­tán við­brögð.

„Já geð­veikt fríkí þrí­fótur,“ segir einn les­enda og lætur fylgja með hlæjandi bros­kall. „Djókaðu í mér...er þetta virki­lega frétt, þetta er mjög aug­ljós­lega þrí­fótur fyrir mynda­vél,“ segir enn annar lesandi sem veit greini­lega ekki hvaðan á sig stendur veðrið vegna frétta­flutnings af mynd­bandinu.

Aðrir skjóta á að hér sé á ferðinni rusla­poki eða hrein­lega dróni. „Er þetta ekki bara maður að bogra þarna?“ spyr einn.

Var þetta bara dökkhærður maður með myndavél?

Geim­verur eða álfar?

Þrátt fyrir að lang­flestir les­endur Frétta­blaðsins virðist telja að hægt sé að skýra furðu­veruna við Detti­foss með eðli­legum hætti eru nokkrir les­endur sem virðast þess full­vissir um að hér sé á ferðinni eitt­hvað yfir­náttúru­legt.

„Mín hug­mynd er þessi: Þetta er geim­vera sem þarna er á ferð,“ skrifar einn les­enda. „Geim­far hefur lent í fossinum eða við hann, gæti verið heppnuð eða mis­heppnuð lending og geim­veran er að klífa upp úr skútanum þar sem geim­farið er falið eða sloppið úr brot­lendingunni. Geim­veran er bara að kíkja eftir að færi gefist á að komast upp óséð. Alla­vega góð byrjun á æsi­spennandi sögu,“ skrifar lesandinn.

„Álfur? Þetta er aug­ljós­lega Gollum,“ skrifar annar og vísar þar til þekktrar per­sónu úr Hringa­dróttins­sögu. Þá skjóta aðrir les­endur á að hér hafi verið á ferðinni álfur eða svo­kallaður skugga­baldur.

Álfatrú Íslendinga hefur fyrir löngu öðlast heimsfrægð. Síðast í Eurovision myndinni þar sem íslensku álfarnir gegndu lykilhlutverki.