Guðmundur Thoroddsen opnaði sýninguna Kannski, kannski í Hverfisgalleríi fyrr í mánuðinum. Um er að ræða abstraktmyndir sem minna að sumu leyti á landslag.
„Þetta eru allt ný verk og ég hafði ekkert sérstaklega langan tíma til að vinna fyrir þessa sýningu. Ég vissi það að ýmsir partar af henni áttu að líta út eins og síðasta sýning en ég vissi samt að ég vildi ekki hafa það sama og ég var orðinn hundleiður á því að fela alltaf þessa hunda inni í landslaginu og það allt,“ segir Guðmundur.

Seildist út í abstrakt
Síðasta sýning Guðmundar í Hverfisgalleríi bar titilinn Hundaholt, hundahæðir, en í þeim verkum faldi Guðmundur mynd af reykjandi hundi í málverkunum. Hann kveðst hafa farið í ólíka átt með nýju sýninguna Kannski, kannski.
„Ég lagði upp með í þessari sýningu að hún ætti að vera alveg abstrakt. En með svipuðum flötum, svipaðri áferð og svipuðum litum. Það er ekkert sem maður ákveður, það er bara eitthvað sem maður dregst að ósjálfrátt. Maður hefur ákveðna litapallettu á ákveðnum tímum. Þegar þú ert að díla við abstrakt þá er oft ekki neitt beint umfjöllunarefni sem slíkt heldur ertu frekar að reyna að miðla einhverju andrúmslofti eða birtu og svo fyrst og fremst litum, formum og áferðum.“
Ertu þá bara orðinn abstraktlistamaður núna?
„Ég veit það ekki. Ég seildist út í abstrakt í þessari sýningu og ég fann mjög fljótt þegar ég var að vinna verkin að ég hef alltaf tendens til að sjá fígúrur út úr einhverju og um leið og það kemur fígúra eða einhvers konar rými eða umhverfi þá er komin saga. Þannig að sama hvað ég reyni þá held ég að ég nái aldrei að vera alveg abstrakt, ég er ekki alveg þannig innréttaður.“
En er það ekki bara partur af mannlegu eðli að leita að munstrum eða tengingum við aðra hluti?
„Já, það er oft hlegið að þessu í myndlistarbransanum að gamli frændinn kemur á sýningu og reynir að sjá einhvern kall út úr einhverri abstrakt mynd en ég held að þetta eigi við um fleiri en bara gamla frændann eða leikmenn á þessu sviði. Ég held að það sé sammannlegt hjá mörgum. Sumir eru ekki þannig víraðir samt.“

Minnir á landslag
En jafnvel þótt málverk Guðmundar séu abstrakt þá minna formin og litirnir að vissu leyti á landslag og listamaðurinn neitar því ekki sjálfur.
„Það er mjög mikið landslag í þeim, það eru litirnir. Áferðirnar geta alveg minnt á landslag, svolítið krafskennt, svo held ég að það sé ekkert tilviljun hvernig maður leggur línurnar, það er oft mikið af láréttu sem skarast síðan á við lóðrétt og maður fer oft að lesa það sem landslag,“ segir Guðmundur.
Hverjir eru þínir helstu áhrifavaldar í listinni?
„Mín helstu áhrif eru kannski frá Andreas Eriksson sem er sænskur samtímamálari, en ég var bara orðinn svo rosalega líkur honum að ég varð að reyna að brjóta eitthvað upp og komast frá því. En að sjálfsögðu eru mikil áhrif frá honum. Svo í fígúratívunni þá eru þetta gamlir gaurar eins og Phillip Guston og Jean Dubuffet. Eitt sem ég pikkaði út úr verkum hans það er þessi svona víbrandi lína í kringum sum formin. Að maður fari ekki með litina alveg upp að næsta formi heldur leyfi bakgrunninum svolítið að skína í gegn, í kringum formið.“
Ég er alltaf meira og meira að komast á þá línu að ég sem myndlistarmaður þarf ekki að vera að segja neitt mjög ákveðið.
Var óviss með verkin
Spurður um hvaðan titill sýningarinnar Kannski, kannski komi segir Guðmundur:
„Kannski svolítið út frá því að ég er ekki að fjalla um neitt ákveðið, engin málefni, ekkert skýrt þema þótt vissulega megi sjá eitthvert landslag. Þannig að þetta er svolítið vísun í óvissuna og líka það að ég var í svolítilli óvissu að vinna fyrir þessa sýningu, vissi ekki alveg hvað ég væri að fara að gera. Óvissa hjá sjálfum mér jafnvel um hvernig mér fyndist hafa til tekist. Ég er nota bene mjög ánægður með þessa sýningu en ég var ekkert viss með öll verkin fram á síðustu stundu, þannig að þetta vísar svolítið bara í einhvern efa.“
Einhvern tímann hefði kannski þótt gamaldags að gera list fyrir listarinnar sakir, er það að koma aftur inn núna?
„Það fer allt í hringi og nú lifum við á tímum þar sem má allt og hægt er að gera allt. Við höfum allar vísanir á hreinu, það er hægt að fletta öllu upp, þú getur vitað allt. Mér finnst ég oft ekkert hafa neinu að bæta við neina umræðu. En það sem maður getur lagt fram er sjónrænt innlegg og það er það sem maður er þjálfaður í og það er það sem ég nýt að gera. Ég er alltaf meira og meira að komast á þá línu að ég sem myndlistarmaður þarf ekki að vera að segja neitt mjög ákveðið.“
Það er þá kannski bara áhorfandans að finna það?
„Já, já, það er hægt að lesa alls konar út úr þessu og sjá ýmislegt út úr þessu. En þetta eru engar allegóríur.“