Lista­maðurinn Stein­grímur Ey­fjörð opnaði ný­lega sýningu í Hverfis­gallerí sem ber heitið Witt­gen­stein? & Fé­lag um lifandi þjóð­trú. Í verkum Stein­gríms ber að líta texta­brot og mynd­efni sem vísa annars vegar til skrifa heim­spekingsins Ludwigs Witt­gen­stein um liti og hins vegar til ís­lenskrar þjóð­trúar. Hið fyrr­nefnda verk á rætur sínar að rekja til sýningar sem Stein­grímur hélt í Gallerí Suður­götu 7 1978 á­samt Frið­riki Þór Frið­riks­syni.

„Þetta eru spurningar sem vísa í það sem ég var að lesa 1978, þegar ég hélt sýningu í Suður­götunni. Þá gerði ég verk upp úr þessari hug­mynd og nú er ég bara ein­hvern veginn að klára hana. Ég hef alltaf verið á leiðinni að gera eitt­hvað meira,“ segir Stein­grímur spurður út í upp­runa verkanna.

Stein­grímur var sér­stak­lega undir á­hrifum ritsins Be­merkun­gen über die Far­ben (Nokkur orð um liti), sem Witt­gen­stein ritaði 1950, ári fyrir and­lát sitt.

„Það var aðal­lega þegar hann var að tala um lit­blindu og það allt saman og liti eins og rauð­grænan eða græn­rauðan. Það eru litir sem eru ekki til en þú getur sagt það og í­myndað þér þá. Þetta sam­tal sem verður ef þú ert að tala um liti og þú kemst að ein­hverri sam­eigin­legri niður­stöðu sem er byggð á ein­hverju allt öðru, þá getum við sagt að það sé eitt­hvað sem er ekki til,“ segir Stein­grímur.

Eitt af verkunum er þátttökuverk þar sem gestum er boðið að setja á sig mismunandi lituð gleraugu og virða fyrir sér litarenninga sem málaðir eru á vegg Hverfisgallerís.
Fréttablaðið/Anton Brink

Litir sem eru ekki til

Eitt af verkunum á sýningu Stein­gríms er þátt­töku­verk þar sem gestum er boðið að setja á sig mis­munandi lituð gler­augu og virða fyrir sér litarenninga sem málaðir eru á vegg Hverfis­gallerís. Gestirnir þurfa svo að ræða skynjun sína á litunum og koma sér saman um niður­stöðu og rita hana á krítar­töflu. Þegar niður­staða er fengin skrifa gestirnir og teikna nafn litarins sem þeir gerðu sam­komu­lag um og taka svo af sér mynd fyrir framan vegginn með polaroid-mynda­vél.

„En af því þau sjá sitt hvern litinn þá er hann ekki til, þannig að þau verða að komast að ein­hverju sam­komu­lagi og skrifa það hérna á myndina. Það er náttúr­lega bara frjálst, þetta er pó­esía en ekki vísindi,“ segir Stein­grímur.

Í texta Stein­gríms sem hangir við hlið verksins segir: „Litir eru ekki til í heiminum heldur verða þeir til í huga þess sem horfir.“ Spurður út í þetta segir lista­maðurinn:

„Þeir eru náttúr­lega bara skynjun á ein­hverjum bylgju­lengdum. Það er til fólk og það eru víst sér­stak­lega konur sem eru með fjórðu stúkuna sem geta séð út­fjólu­blátt ljós og að­eins fleiri liti. Þá dettur manni í hug hvort það sé ein­hver tegund af skyggni. Það er til fólk sem sér ein­hverjar verur og svo fram­vegis, það getur vel verið að það hafi þessa auka­skynjun.“

Gestirnir teikna nafn litarins sem þeir gerðu sam­komu­lag um og taka svo af sér mynd fyrir framan vegginn með polaroid-mynda­vél.
Fréttablaðið/Anton Brink

Sál­fræði­leg landa­fræði

Hitt verkið á sýningunni ber titilinn Fé­lag um lifandi þjóð­trú og er eins konar sál­fræði­leg landa­fræði af Reynis­hverfi í Mýr­dal hvar Stein­grímur var sendur í sveit á sjöunda ára­tugnum. Þar skoðar lista­maðurinn þjóð­trú sem hann kynntist í sveitinni sem ungur maður.

„Þeir sem voru í sveit á 7. ára­tugnum, þeir muna eftir því að það var alltaf völvu­leiði og ein­hver svæði sem eru svona „psychogeo­grap­hi­­cal“. Þetta er í raun og veru bara eitt­hvað sem ég kalla lifandi þjóð­trú og hún er náttúr­lega til enn þá hjá þjóðinni, það er fólk sem hittir huldu­fólk og álfa. Þetta er enn þá til til sveita þó svo að þetta sé kannski að fjara út. En það er enn þá til fólk sem hefur reynslu af ein­hverju yfir­náttúru­legu,“ segir hann.

Upp­lifðir þú eitt­hvað yfir­náttúru­legt þegar þú varst í sveit í Mýr­dal?

„Ekki nema bara að ég upp­lifði náttúruna. Ég lenti einu sinni í því að fara upp á fjall að reka kindur og þá bara fann ég að ég fór í gegnum vegg inn í ein­hvern heim sem mennirnir réðu ekki yfir. Það var eitt­hvað annað í gangi. Ég veit ekki hvort það var yfir­náttúru­legt en ég held að margir upp­lifi það sem fara á heiðar eða ein­hvers staðar þar sem er bara náttúran og ekkert annað.“

Myndir af þjóðsagnasafnaranum Jóni Árnasyni og rússneska formalistanum Vladímír Propp prýða verk Steingríms.
Fréttablaðið/Anton Brink

Mynd­list en ekki rann­sóknir

Í verkinu Fé­lag um lifandi þjóð­trú fjallar Stein­grímur einnig um liti með vísunum í bláa blómið sem var tákn rómantísku stefnunnar á 19. öld og hvít­bláa fánann sem Einar Bene­dikts­son hannaði 1897.

„Þegar maður er að búa til lista­verk þá veit maður ekkert hvað gerist fyrir fram. En þá kemur í ljós að það er bláa blómið, rómantíska tíma­bilið, sem vísar náttúr­lega í Jón Árna­son og svo Einar Bene­dikts­son sem gerði Hvít­bláann, hug­mynd að fána að ein­hverju sem er ekki til í raun­veru­leikanum og það sama er með bláa blómið,“ segir hann.

Þótt Stein­grímur vísi í ýmis fræði í sínum verkum þver­tekur hann þó fyrir að stunda rann­sóknar­vinnu.

„Ég kalla það ekki rann­sóknir. Þetta er náttúr­lega bara mynd­list. Það má ekki blanda þessu saman.“