Fast­eigna­salinn Matt James hefur verið valinn til að vera næsti pipar­sveinn í banda­rísku raun­veru­leika­þáttunum Bachelor. Peop­le greinir frá en James er jafn­framt fyrsti svarti pipar­sveinninn frá upp­hafi.

Í til­kynningu frá ABC sjón­varps­stöðinni segir að það sé heiður að James verði næsti pipar­sveinninn. „Við vitum að við berum skyldu til að tryggja að ástar­sögu á skjánum séu sam­svarandi heiminum sem við lifum í,“ segir meðal annars í til­kynningunni.

Að­dá­endur þáttanna höfðu undan­farnar vikur kallað eftir auknum fjöl­breyti­leika í þáttunum. 84 þúsund manns skrifuðu undir undir­skriftar­lista þar sem þess var krafist að fram­leiðandinn Mike Fleiss fengi fleiri litaða kepp­endur til liðs við þáttanna.

Þar var þess getið að í 40 þátta­röðum af Bachelor og Bachelorette væri Rachel Linds­ey hingað til eini svarti keppandinn.

Í um­fjöllun Peop­le kemur fram að nýi pipar­sveinninn hafi átt að vera einn af kepp­endum í nýjustu þátta­röðinni af Bachelorette. Staðan þar sé hins vegar ó­ljós nú, vegna CO­VID-19. Ekki sé ljóst hvort James verði þar einnig keppandi eða hvort hætt hafi verið við.