Rófurass er yfir­skrift sýningar Bjarg­eyjar Ólafs­dóttur í Lista­safni Ár­nesinga, Hvera­gerði. Bjarg­ey lærði ljós­myndun, málara­list og blandaða tækni í Lista­há­skóla Ís­lands og Lista­akademíunni í Helsinki, og hand­rits­gerð og leik­stjórn í Bin­ger Filmlab í Amsterdam. Hún vinnur í fjöl­breyttum miðlum og hefur gert nokkrar kvik­myndir. Hún hefur sýnt verk sín víða um lönd.

Sýning hennar í Lista­safni Ár­nesinga saman­stendur af teikningum, ljós­myndum, skúlptúr, kvik­myndum, mál­verkum og hljóð­verkum þar sem hundar eru í aðal­hlut­verki. Sýningar­stjóri er Jona­tan Habib Engqvist.
Gestir sem ganga inn í salinn heyra ein­kenni­legt hljóð og lista­konan upp­lýsir að þarna sé um að ræða hunds­hrotur. „Á sínum tíma var ég fengin til að gera verk fyrir danska þjóð­lista­safnið og þá gerði ég þetta hunds­hrotu­verk. Hug­myndina fékk ég þegar ég las við­tal við ljós­myndarann og ofur­fyrir­sætuna Helenu Christen­sen, þar sem hún sagði frá því að þegar hún væri á ferða­lögum og væri stressuð eða kvíðin og gæti ekki sofið þá hlustaði hún á upp­tökur af hrotum hundsins síns, honum Kuma. Á þessum tíma bjó ég með litla hundinum Wooki­e sem hraut há­stöfum. Ég tók upp hrotunar í honum sem drundu síðan um danska þjóð­lista­safnið og nú um Lista­safn Ár­nesinga.“

Mál­verk sem glóa í myrkri

Meðal verka á sýningunni eru risa­mál­verk sem glóa í myrkri og tíma­stilltir kastarar eru notaðir til að lýsa upp ljós­mynda­verkin, teikningarnar og skúlptúrana. Þannig breytist lýsingin í rýminu reglu­lega, úr rökkri í birtu. Þetta skapar sér­stakt and­rúms­loft. „Kannski er þetta dá­lítið eins og að vera inni í móður­kviði,“ segir Bjarg­ey.

Mynd­skeið sem Bjarg­ey tók á 16 milli­metra filmu er varpað á vegg safnsins og sýnir stóran hvítan Síberíu­hund af Samójed kyni. „Ég tók þetta mynd­skeið í Ríga af Síberíu­hundinum Loya sem lítur nánast út eins og ís­björn. Ég notaði gamla rúss­neska vél og það var smá flækja inni í henni sem varð til þess að myndin verður nánast eins og tvö­föld og virkar svo­lítið drauga­leg,“ segir Bjarg­ey. Ljós­myndir af fleiri hundum í Ríga eru á sýningunni og teikningar Bjarg­eyjar sýna hunda og í sumum til­vikum menn og þar er nánast eins og maður og hundur renni saman í eitt.

Fá að teikna eigin hund

Spurð um hunda­á­huga sinn segir Bjarg­ey: „Ég ætlaði ekki endi­lega að halda hunda­sýningu en upp­götvaði svo þessa hunda­þrá­hyggju mína. Stundum verður maður að treysta undir­með­vitundinni, leiknum og til­rauna­mennskunni. Það er mikil­vægt að lista­menn hafi nægt rými til þess. Maður verður að trúa á töfrana.“

Það kemur ekki á ó­vart að börn hafa ein­stak­lega gaman af þessari sýningu Bjarg­eyjar. Í lista­safninu gefst þeim kostur á að skoða bækur um hunda og fá að teikna sína eigin hunda. Hluti þessara mynda barnanna er til sýnis í Bóka­safni Hvera­gerðis.

Eigin út­gáfa

Í tengslum við sýninguna kemur út bók með verkum Bjarg­eyjar á sýningunni. „Hún kemur út á vegum VOID, sem er virt bóka­út­gáfa í Aþenu sem gefur út ljós­mynda­bækur. Þetta er fyrsta bókin sem er gefin út af þeim sem er ekki einungis með ljós­myndum,“ segir Bjarg­ey. „Í kjöl­farið hef ég stofnað eigin út­gáfu, Ger­semi, með João Linneu for­leggjara og grafískum hönnuði VOID, sem er að flytja til Ís­lands. Rófurass- bókin er í raun sam­starfs­verk­efni VOID og Ger­semar. Eins bjuggum við til sér­stakt bók­verk, það er að segja við­hafnar­út­gáfu, sem saman­stendur af kassa með bókinni og tveimur auka­bókum: fletti­bók og lítilli sögu með teikningum. Ég er með aðra bók í bí­gerð og í henni verða ljós­myndir eftir mig.“