Svo gaman að bjóða upp á svona fallega og ljúffenga kokteila á góðum degi. Það passar vel að bjóða upp á osta, álegg og eitthvað sætt með þessum kokteil og njóta. Við mælum með þessum dýrindis kokteil um helgina þar sem frosnar nektarínur leika aðalhlutverkið.

Ferskju-Froze-1.jpeg

Nektarínukokteill

Fyrir 6 glös

10 þroskaðar nektarínur

200 ml vatn

3 msk. hlynsíróp

4 timian stönglar

1 flaska Muga rósavín

Skerið nektarínurnar í þunnar sneiðar og frystið í að minnsta kosti 4 klukkustundir (geymið tvær ferskar, eina til að skreyta með og hina fyrir sírópið). Setjið eina nektarínu í sneiðum í pott ásamt vatni, sírópi og timian. Hitið að suðu og leyfið síðan að malla í 5-10 mínútur.

Sigtið þá allt gumsið frá og hellið vökvanum/sírópinu í krukku og setjið inn í ísskáp til kælingar. Gott er að útbúa sírópið og setja nektarínurnar í frysti að morgni eða daginn áður en njóta á drykkjarins. Þegar það kemur að því að útbúa kokteilinn má setja frosnar nektarínusneiðar, síróp og rósavín í blandarann og blanda vel þar til áferðin verður eins og krap. Gott er að skipta þessari uppskrift til helminga fyrir blandarann, gera 3 og 3 glös í senn nema þið eigið þeim mun stærri blandara. Skreytið síðan með ferskum nektarínusneiðum og timian. Ef þið viljið gera kokteilinn óáfengann er upplagt að vera með sódavatn eða seven up í staðinn fyrir rósavínið.

Ferskju-Froze 3.jpeg