Reykjavíkurdætur, GDRN, Mammút og Emmsjé Gauti eru meðal tónlistarfólks sem kemur fram á Innipúkanum í ár. Hátíðin verður haldin í nítjánda sinn í miðborg Reykjavíkur um verslunarmannahelgina og fer hún fram að þessu sinni við Ingólfsstræti.

Hluta götunnar verður þá lokað og fer aðaldagskráin fram inni í Gamla bíói og verður hliðardagskrá á Röntgen. Boðið verður upp á fjölbreytta tónleikadagskrá helgina 31. júlí til 2. ágúst.

Líkt og seinustu ár verður „alltaf gott veður á Inni­púkanum,“ enda er há­tíðin að mestu leyti haldin innan­dyra eins og nafnið gefur til kynna.
Mynd: Víðir Björnsson

Hafa varann á

Ásgeir Guðmundsson, framkvæmdastjóri Innipúkans, segir að margt þurfi að hafa í huga varðandi takmarkanir vegna COVID-19. Skipuleggjendur miði við 500 manna samkomubann.

„Þetta er aðeins öðruvísi í ár vegna fjöldatakmarkanna. Við erum að miða við fimm hundruð manna samkomubann en ef þetta fer upp í tvö þúsund þá erum við samt að miða við um 700 manna samkomu. Við viljum frekar hafa varann á,“ segir Ásgeir í samtali við Fréttablaðið.

Hátíðargestir í fyrra þegar Innipúkinn var haldinn á Bryggjunni Brugghúsi og Messanum úti á Granda.
Mynd: Majid

Ókeypis hátíðardagskrá utandyra

Miðasala hefst með forsölu í Sambandsappinu á fimmtudag og svo formlega í byrjun næstu viku á Tix.is. Armband á hátíðina gildir alla helgina, bæði í Gamla bíó og á efri hæð Röntgen. Einnig er hægt að kaupa miða inn á stök kvöld.

Ókeypis hátíðardagskrá fer fram utandyra yfir hátíðardagana og verður alvöru hátíðarstemning á Ingólfsstræti að sögn forsvarsmanna hátíðarinnar. Á útisvæðinu má gera má ráð fyrir gamalreyndum púka-dagskrárliðum á borð við árlegum lista- og fatamarkaði, ásamt plötusnúðum og veitingasölu.

Á útisvæðinu verða lista- og fatamarkaðir ásamt plötusnúðum og veitingasölu.
Myndir: Håvard Evje / Majid

Tónlistarfólk sem kemur fram á hátíðinni eru; Bríet, Emmsjé Gauti, Flóni, GDRN, gugusar, Hipsumhaps, krassasig, Mammút, Reykjavíkurdætur, Skoffín og Une Misére. Von er á til­kynningu með fleiri lista­mönnum þegar nær dregur.

Dj flugvél og geimskip á Innipúkanum árið 2019.
Mynd: Brynjar Snær
Auður lét sig ekki vanta í fyrra.
Mynd: Brynjar Snær
Daði Freyr okkar allra hefur tekið lagið á Innipúkanum.
Mynd: Víðir Björnsson