Komið er í ljós hvaða lög taka þátt í Söngvakeppninni í ár. 10 lög hafa verið valin til þátttöku og munu fimm þeirra etja kappi í fyrri undanúrslitum í Háskólabíói laugardaginn 8. febrúar en hin fimm viku síðar í seinni undanúrslitum þann 15. febrúar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV. Tvö lög úr hvorri undankeppni komast áfram í úrslitin í gegnum símakosningu áhorfenda. Það verða því fjögur lög sem keppa til úrslita í Laugardalshöll 29. febrúar þegar framlag Íslands til Eurovision söngvakeppninnar verður valið.

Hljómsveitin Dimma tekur þátt í keppninni.

Framkvæmdastjórn keppninnar hefur þó sem fyrr möguleika á að bæta við einu lagi í úrslitin, svokölluðu wildcard eða „Eitt lag enn” eins og það er kallað í keppninni. Kynnar í keppninni verða þau Björg Magnúsdóttir, Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson.

RÚV hugðist upprunalega ætla að tilkynna um keppendur keppninnar í kvöld en öllum lögunum var lekið á streymisveitunni Spotify í dag og var tilkynningin send út í kjölfarið. Þó er ekki hægt að hlusta á lögin á Spotify, heldur birtist aðeins listi með lögum og flytjendum þeirra. Lögin verða aðgengileg eftir klukkan átta í kvöld.

Í samtali við Fréttablaðið segir Rúnar Freyr Gíslason, verkefnastjóri sjónvarps á RÚV, að verið sé að kanna hvað varð til þess að listinn birtist fyrr en ætlað var á Spotify. Ekki er ljóst hvort honum hafi verið stolið eða að um mannleg mistök hafi verið að ræða.

Hér fyrir neðan er listi yfir atriðin, höfunda og flytjendur í Söngvakeppninni 2020:

Fyrri undanúrslit í Háskólabíói - 8. febrúar

Ævintýri

Flytjandi: Kid Isak

Lag: Þormóður Eiríksson, Kristinn Óli Haraldsson og Jóhannes Damian Patreksson

Texti: Þormóður Eiríksson og Kristinn Óli Haraldsson

Augun þín / In your eyes

Flytjandi: Brynja Mary

Lag: Brynja Mary Sverrisdóttir og Lasse Qvist

Texti: Kristján Hreinsson

Enskur texti: Brynja Mary Sverrisdóttir

Almyrkvi

Flytjandi: DIMMA

Lag: DIMMA

Texti: Ingó Geirdal

Elta þig / Haunting

Flytjandi: Elísabet

Lag: Elísabet Ormslev og Zoe Ruth Erwin

Texti: Daði Freyr

Enskur texti: Zoe Ruth Erwin

Klukkan tifar / Meet me halfway

Flytjendur: Ísold og Helga

Lag: Birgir Steinn Stefánsson og Ragnar Már Jónsson

Texti: Stefán Hilmarsson

Enskur texti: Birgir Steinn Stefánsson, Ragnar Már Jónsson og Stefán Hilmarsson

Seinni undanúrslit í Háskólabíói - 15. febrúar

Gagnamagnið / Think about things

Flytjendur: Daði og Gagnamagnið

Lag, íslenskur og enskur texti: Daði Freyr

Fellibylur

Flytjandi: Hildur Vala

Lag: Hildur Vala og Jón Ólafsson

Texti: Bragi Valdimar Skúlason

Oculis Videre

Flytjandi: Iva

Lag og íslenskur texti: Íva Marín Adrichem og Richard Cameron

Enskur Texti: Richard Cameron

Dreyma

Flytjandi: Matti Matt

Lag: Birgir Steinn Stefánsson og Ragnar Már Jónsson

Texti: Matthías Matthíasson

Ekkó / Echo

Flytjandi: Nína

Lag: Þórhallur Halldórsson og Sanna Martinez

Texti: Þórhallur Halldórsson og Einar Bárðarson

Enskur texti: : Þórhallur Halldórsson, Christoph Baer, Donal Ryan og Sanna Martinez

Miðasala hefst á fimmtudaginn

„Keppnin hefur vaxið og dafnað síðustu árin og í ár verður ekki slegið slöku við. Boðið verður upp á skemmtiatriði á öllum viðburðunum og von er á erlendu Eurovision-atriði í úrslitinum í Höllinni . Tilkynnt verður um það á næstu dögum,“ segir í tilkynningu RÚV.

Miðasala á keppnina hefst á fimmtudaginn 23. janúar á tix.is. „Undanfarin ár hefur skapast mikil fjölskyldustemmning á viðburðunum sjálfum en í ár munu þeir Gunni og Felix hita áhorfendur í sal upp. Undanúrslitin og úrslitin verða að sjálfsögðu í beinni útsendingu á RÚV.“