Að­dá­endur YouTu­be-stjörnu, sem gekk undir nafninu Technoblade, syrgja nú þennan vin­sæla tölvu­leikja­spilara.

Technoblade, sem hét réttu nafni Alexander, lést í vikunni eftir snarpa bar­áttu við krabba­mein sem hann greindist með fyrir tæpu ári síðan. Hann var með tæp­lega ellefu milljónir fylgj­enda á YouTu­be og spilaði einkum hinn vin­sæla tölvu­leik Minecraft.

Faðir Alexanders, sem var 23 ára þegar hann lést, kom fram í mynd­bandi þar sem and­lát hans var stað­fest.

Nokkrar vikur eru síðan ljóst var í hvað stefndi og var Alexander búinn að taka upp mynd­band þar sem hann þakkaði fylgj­endum sínum sam­fylgdina í gegnum árin. Sagði hann að síðustu ár hans hefðu verið þau bestu í hans lífi.

„Hann var besti sonur sem hægt var að hugsa sér,“ sagði faðir hans í kveðju­mynd­bandinu.

Það var í ágúst í fyrra að Alexander til­kynnti fylgj­endum sínum að hann hefði greinst með krabba­mein. Það gerðist eftir að hann fór til læknis vegna verkja í hand­leggnum og taldi hann í fyrstu að hann væri hand­leggs­brotinn. Mynda­tökur og frekari rann­sóknir leiddu í ljós að um al­var­legt krabba­mein væri að ræða.