„Þær eru báðar frábærar,“ segir Halla Ármannsdóttir sem fékk danskar sjónvarpsstjörnur, prjónahönnuðinn Lærke Bagger og sjónvarpskonuna Christine Feldthaus, í heimsókn til sín þar sem þær voru staddar á Íslandi síðasta sumar.

Tilefnið er sjónvarpsþáttur þeirra Christine og Lærke sem ber nafnið Feldthaus & Bagger tapa grímunni. Hann var sýndur í danska ríkisútvarpinu síðasta laugardagskvöld og má horfa á vefsíðu sjónvarpsins.

Í þættinum einblíndu þær stöllur á íslenska prjónahönnun og það er engin tilviljun að þær hafi heimsótt Höllu sem er útskrifaður prjónahönnuður frá London College of Fashion og selur hönnun sína undir nafninu Halla Armanns.

„Ég hef fylgst lengi með Lærke Bagger og það var ótrúlega skemmtilegt að fá hana í heimsókn,“ segir Halla. Það vakti athygli að í þættinum var Lærke yfir sig hrifin af hönnun Höllu og gekk meðal annars beint í síða slá úr hönnun Höllu.

Draumaflíkin

„Ég bjóst alls ekki við því að hún myndi fara í hana,“ segir Halla hlæjandi en Lærke hreinlega gekk að flíkinni og skellti sér í hana í þættinum. „Hún sagðist bara verða að fara í hana,“ segir Halla sem segir það eðli málsins samkvæmt vera mikinn heiður.

„Þetta gerir eitthvað mikið fyrir sjálfstraust mitt,“ segir danski prjónahönnuðurinn á meðan Christine tekur undir: „Þetta er sjálfbær tíska og þetta er sjálfbær kynþokki!“

Hönnun Höllu vakti mikla lukku hjá dönsku stjörnunum.
Mynd/Aðsend

„Það tók mig ótrúlegan tíma að hanna þessa flík, sem er alls ekkert alltaf möguleiki. En ég leyfði mér loksins að gera draumaflíkina mína og hún átti að verða hluti af sýningu í New York sem svo var hætt við, þannig að ég er mjög þakklát fyrir að hún hafi nú samt fengið einhverja athygli,“ útskýrir Halla létt í bragði.

„Þetta er skemmtilegt handverk og sýnir hvað er hægt að gera mikið. Ég held að oft sé fólk kannski fast í því að hugsa bara um prjón sem íslensku lopapeysuna eða húfu og vettlinga, á meðan möguleikarnir með prjón eru miklu fleiri og prjónninn er nýttur úti í heimi á svo allt öðruvísi hátt en hér heima,“ segir Halla.

Tortryggnar í garð taglsins

Halla bætir því við að það sé stórkostlegt hvernig þættir þeirra Lærke og Christine vekja athygli á flórunni í prjónaheiminum hér heima og víðar. Prjónahönnun er ekki það eina sem kemur við sögu í þættinum en Halla sýndi Dönunum hvernig hún nýtir tögl af hestum í hönnun sína.

Halla Ármannsdóttir segir danska þáttinn varpa ljósi á það hve möguleikarnir í prjónalistinni eru margir.

„Þær voru ekkert sérlega spenntar fyrst og það er oftast upplifun flestra fyrst þegar ég sýni þeim þetta,“ segir Halla hlæjandi en hún fékk þær Lærke og Christine til að aðstoða sig við að þvo hestatagl í þættinum.

„Það er þvílík ólykt af þessu! Hvað í ósköpunum eigum við að gera við þetta?“ spyr Christine meðal annars í þættinum. Þær urðu þó öllu hrifnari af þessu þegar Halla sýndi þeim afraksturinn en hún hannar meðal annars eyrnalokka, veski og armbönd úr töglunum.

„Því miður er taglið eitthvað sem endar eiginlega alltaf í ruslinu. Það er líka rosalega flókið að vinna efni úr þessu því hárin eru mislöng,“ segir Halla sem mun taka þátt í Handverk og hönnun í Ráðhúsinu 17. – 21. nóvember næstkomandi.

„En ef við ætlum að vera að slátra hrossum yfir höfuð þá þurfum við að gera okkur grein fyrir því að við verðum að nýta allt það sem hrossið hefur að gefa.“