Það er nú ekki víst að karlinn geti púkkað upp á það,“ segir Gunnar Jóns­son og hlær þegar blaða­maður segist hafa verið á ferð og flugi í leit að skemmti­legum fréttum á Reykja­nesinu. Gunnar er 97 ára og hefur búið í húsinu sínu í Kefla­vík í 70 ár, þar sem hann unir sér vel.

„Ég þekki ekkert annað og kann á­gæt­lega við mig hér. Hér vil ég helst vera. Ég fór aldrei á neitt flakk, ég var heima­kær og sá enga á­stæðu til þess, enda á­nægður með það sem ég hafði. Þett er náttúr­lega það sem eftir verður af manni,“ segi Gunnar, sem viður­kennir að stefna ekki á neina heims­reisu úr þessu.

Frískur miðað við aldur

„En ég er búinn að fara til nokkurra landa. Ég var skip­stjóri en það er dá­lítið síðan ég hætti því, þá var ég mest á fiski­bátum.“

Gunnar stundar fjar­líkams­rækt hjá Janusi heilsu­eflingu af miklum móð. „Janus er alltaf eitt­hvað að fikta í mér og mæla mig. Ég hlýt að vera eitt­hvað undar­legur,“ segir hann hlæjandi.

„Ég er bara á­gæt­lega frískur miðað við aldur.“ Hann hefur komið upp fínustu líkams­ræktar­að­stöðu í stofu­ganginum hjá sér. Á veggnum hangir plakat með myndum af ýmsum æfingum. Janus hvetur svo Gunnar til dáða.

Jafn­vægið erfiðara

„Þetta eru nokkrar æfingar, alveg tíu eða tólf. Teygjur til að mynda og nokkrar æfingar í gólfinu. Alls konar fettur og brettur. Það er mikil á­hersla lögð á jafn­vægis­æfingar, þær eru erfiðastar.“

Gunnar notast við nokkur lóð við sumar æfingarnar. „Ég hef verið að lyfta lóðum í Massanum, þar vorum við með átta kílóa lóð,“ segir hann og á við Massa, vin­sæla líkams­ræktar­stöð, sem hefur verið starf­rækt lengi í Njarð­vík.

Hann segist ekki alltaf hafa haft á­huga á líkams­rækt. „Nei, það kom bara núna ný­lega, á gamals­aldri. Mér finnst þetta mjög skemmti­legt og gott. Ég hefði átt að gera þetta löngu fyrr.“

Féll fyrir dansinum

En eitt af því skemmti­legra sem hann gerir er þó að dansa.

„Það er kona hérna í bænum sem er með hóp­dans. Við erum þarna í dansinum, sex­tán stelpur og einn strákur; ég. Ég féll alveg fyrir þessu. Við höfum stundum verið tólf þegar ein­hver fer í frí. Við komum saman á Nes­völlum í sal í kjallaranum, pass­legur fyrir smá dans. Þetta er hóp­dans en ekki sam­kvæmis­dans, meira eins og viki­vaki. Farið í krossa og sitt á hvað á milli.“

Það er líka vin­sælt að taka línu­dans í hóp­dansinum. „Svo höfum við lært vínar­kruss og skottís. Þetta er mjög fínt. Svo vill það stundum gleymast hjá okkur hvernig dansinn er þegar hún segir bara hvað hann heitir. Hvað er nú það? spyrja sumir. En þegar tón­listin byrjar, þá muna allir allt.“ Gunnar segist hlusta öðru hvoru á tón­list. „Já, svona og svona. Bara fyrir mig.“