HBO vinnur nú að gerð sjón­varps­þátta eftir tölvu­leiknum The Last of Us, sem kom út árið 2013 og þykir af mörgum vera einn besti tölvu­leikur allra tíma.

Í frétt sem birtist á kanadísku frétta­stöðinni CTV í Alberta­fylki, þar sem þættirnir eru teknir upp, kemur fram að hver þáttur tíu þátta seríunnar gæti kostað rúmar 10 milljónir Banda­ríkja­dala, sem myndi gera The Last of Us að einni dýrustu sjón­varps­þátta­röð sögunnar.

The Last of Us sem byrjar í tökum í þessari viku er svo sannar­lega skrímsli. Það eru fimm list­rænir stjórn­endur og heill her af hundruðum tækni­manna. Það fóru sex mánuðir í undir­búnings­vinnu og tökurnar munu taka tólf mánuði,“ segir Damian Petti, for­stjóri I­AT­SE 212 stéttar­fé­lagsins í Alberta­fylki.

Að sögn Petti er kostnaður við hvern þátt seríunnar vel yfir tíu milljónir dollara og segir hann fram­leiðsluna vera mikinn hval­reka fyrir fyrir­tæki í grenndinni.

Sam­kvæmt banda­ríska dægur­miðlinum AV Club eru ekki margar sjón­varpsseríur í sögunni sem státa af svipað dýrri fram­leiðslu en þar má einna helst nefna síðusta seríu Game of Thrones þáttanna en hver þáttur hennar kostaði allt að 15 milljónir Banda­ríkja­dala. Hins vegar þá voru að­eins sex þættir í þeirri seríu svo The Last of Us gæti vel farið fram úr því.

Með aðal­hlut­verk The Last of Us fara leikararnir Pedro Pas­cal og Bella Rams­ey, sem bæði fóru með eftir­minni­leg hlut­verk í Game of Thrones. Þau leika tví­eykið Joel og Elli­e sem þurfa að brjóta sér leið í gegnum Banda­ríkin sem eru undir­lögð af skæðri plágu sem breytt hefur meiri­hluta mann­kynsins í upp­vakninga.