Meg­han Mark­le, her­toga­ynja af Sus­sex og eigin­kona Harry Breta­prins, hefur mátt sitja undir nær linnu­lausum og þaul­skipu­lögðum á­rásum á Twitter undan­farin misseri.

Talið er að 83 Twitter-reikningar hafi staðið á bak við 70% af tístunum sem dreifðu fals­upp­lýsingum og haturs­áróðri um her­toga­ynjuna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu greiningar­fyrir­tækisins Bot Sentinel og fjallað er um á vef Guar­dian.

Bæði Harry og Meg­han hafa talað fyrir heil­brigðari um­ræðu á sam­fé­lags­miðlum og hefur Meg­han sjálf látið hafa eftir sér að hún forðist sam­fé­lags­miðla vegna um­ræðunnar þar.

Bot Sentinel greindi alls 114 þúsund tíst þar sem fjallað var um hjónin. Í ljós kom að 83 reikningar stóðu á bak við meiri­hluta af á­róðrinum sem í 80% til­fella beindist ein­göngu að Meg­han.

Um­ræddir að­gangar höfðu sam­tals rúm­lega 187 þúsund fylgj­endur og gátu náð til milljóna annarra reikninga. Talið er að sömu ein­staklingarnir hafi staðið á bak við reikningana þar sem þeir endur­tístu efni frá hvor öðrum. Christop­her Bouzy, fram­kvæmda­stjóri Bot Sentinel, segir að fátt bendi til þess að tölvur eða bottar hafi verið á bak við tístin.

Ó­víst er hver til­gangurinn er með tístunum annar en að draga niður orð­spor her­toga­ynjunnar.