Sænskir miðlar hrósa hljóm­sveitinni Hatara í há­stert í dag. Þar er heimildar­myndin A Song Cal­led Hate, um Euro­vision ferð sveitarinnra til Ísrael árið 2019 nú um­fjöllunar­efni.

Til­efnið er frum­sýning myndarinnar í dag á kvik­mynda­há­tíðinni í Gauta­borg. Myndin er jafn­framt til­nefnd til Dragon verð­launanna sem besta nor­ræna heimildar­myndin árið 2020. Dagens Ny­heter segir að myndin dragi fram mann­legu hliðina í pólitískum á­tökum og aktív­isma lista­manna. Sænska ríkisútvarpið segir Hatara hafa þorað að taka afstöðu.

A Song Cal­led Hate var frum­sýnd á kvik­mynda­há­tíðinni RIFF í septem­ber síðast­liðnum. „Þetta er í rauninni draumur heimildar­gerðar­mannsins, að fá að vinna svona náið með við­fangs­efninu,“ sagði Anna Hildur Hildi­brands­dóttir, leik­stjóri myndarinnar í sam­tali við Frétta­blaðið við til­efnið.

Fyrir þátt­töku Hatara í Euro­vision 2019 voru uppi skiptar skoðanir um þátt­töku Ís­lands í keppninni. Sam­kvæmt skoðana­könnun sem Zenter-rann­sóknir gerðu fyrir Frétta­blaðið í maí sama ár, vildi fjórðungur lands­manna snið­ganga keppnina til að sýna Palestínu­mönnum stuðning.

„Á­stæðan fyrir því að við tókum þátt í þessari keppni var sú að Ís­land var að fara að taka þátt, það var ein­hver þátt­takandi að fara fyrir Ís­lands hönd til Tel Aviv og okkur fannst að fyrst það væri að fara að gerast þá ætti sá þátt­takandi að reyna sitt besta til þess að vekja at­hygli á því hræði­lega á­standi sem er að eiga sér þarna stað. Við vildum sýna okkar af­stöðu í verki,“ sagði Klemens í sam­tali við blaðið í septem­ber.