Listahópurinn Kunningjar, sem samanstendur af Hallveigu Kristínu Eiríksdóttur sviðshöfundi og Arnari Geir Gústafssyni, sviðslista- og myndlistarmanni, sýnir þátttökuverkið 2x2 Rýmisskynjun: Ævintýraferðir, á Reyðarfirði um helgina.
Í verkinu leika þau sér með fagurfræði og lögmál ævintýraferða fyrir túrista í bland við þá næmni sem felst í því að staldra við og veita nærumhverfi sínu athygli. Verkið kannar form leiðsagðra kynnisferða líkt og fjórhjólaferða, jöklaskoðana og kajakferða, þar sem áhorfendur sitja lítinn fyrirlestur um þætti rýmisskynjunar, klæða sig í galla, og fylgja síðan leiddri rýmisskynjun með fókuspunktum, hugleiðingum og sjálfstæðum verkefnum.
Að sögn Arnars völdu þau Reyðarfjörð sem sýningarstað meðal annars vegna þess að hann á ættir að rekja þangað:
„Amma Klara og afi Vignir áttu heima á Reyðarfirði meginþorra ævi sinnar og pabbi er þar uppalinn. Ég var oft á Reyðarfirði á sumrin sem barn, þar sem ég lék mér við frændfólk mitt á ótrúlegustu stöðum, eða kannski ekki ótrúlegum fyrir fólk sem tók þessum stöðum sem sjálfsögðum hlut, þetta voru nú bara húsakantar, bakgarðar, gangstéttir, skurðir, móar og lækir. En fyrir okkur voru þessir staðir uppspretta óendanlegra möguleika, okkar eigin bráðabirgðaævintýraheims,“ segir hann.
Hallveig og Arnar eru bæði stofnmeðlimir sviðslistahópsins CGFC sem hefur lagt áherslu á framúrstefnulega listsköpun, gjarnan í óhefðbundnum sýningarrýmum, allt frá stofnun 2015.
„Við viljum einmitt bjóða fólki að veita óhefðbundnum stöðum meiri athygli en er vanalega gert. Bjóða því upp á að búa til sinn eigin heim, að skynja umhverfið á eigin forsendum,“ segir Hallveig.
„Það er líka spennandi að sjá hvernig ævintýra- eða fantasíuheimur manns lítur út þegar maður er ekki barn lengur. Kannski leynist þar eitthvað nýtt og jafnvel enn skemmtilegra, eða kannski finnur maður út úr einhverju sem maður var búinn að reyna að komast að mjög lengi? Eða jafnvel vissi ekki að maður ætti eftir að komast að?“
Fjórar sýningar verða á föstudag og laugardag í tengslum við listahátíðina Innsævi á Reyðarfirði. Verkið verður einnig sýnt á Hamraborg Festival 27. ágúst. Nánari upplýsingar má finna á Facebook-síðu Innsævis.
