Lista­hópurinn Kunningjar, sem saman­stendur af Hall­veigu Kristínu Ei­ríks­dóttur sviðs­höfundi og Arnari Geir Gústafs­syni, sviðs­lista- og mynd­listar­manni, sýnir þátt­töku­verkið 2x2 Rýmis­skynjun: Ævin­týra­ferðir, á Reyðar­firði um helgina.

Í verkinu leika þau sér með fagur­fræði og lög­mál ævin­týra­ferða fyrir túr­ista í bland við þá næmni sem felst í því að staldra við og veita nær­um­hverfi sínu at­hygli. Verkið kannar form leið­sagðra kynnis­ferða líkt og fjór­hjóla­ferða, jökla­skoðana og kajak­ferða, þar sem á­horf­endur sitja lítinn fyrir­lestur um þætti rýmis­skynjunar, klæða sig í galla, og fylgja síðan leiddri rýmis­skynjun með fókus­punktum, hug­leiðingum og sjálf­stæðum verk­efnum.

Að sögn Arnars völdu þau Reyðar­fjörð sem sýningar­stað meðal annars vegna þess að hann á ættir að rekja þangað:

„Amma Klara og afi Vignir áttu heima á Reyðar­firði megin­þorra ævi sinnar og pabbi er þar upp­alinn. Ég var oft á Reyðar­firði á sumrin sem barn, þar sem ég lék mér við frænd­fólk mitt á ó­trú­legustu stöðum, eða kannski ekki ó­trú­legum fyrir fólk sem tók þessum stöðum sem sjálf­sögðum hlut, þetta voru nú bara húsakantar, bak­garðar, gang­stéttir, skurðir, móar og lækir. En fyrir okkur voru þessir staðir upp­spretta ó­endan­legra mögu­leika, okkar eigin bráða­birgða­ævin­týra­heims,“ segir hann.

Hall­veig og Arnar eru bæði stofn­með­limir sviðs­lista­hópsins CGFC sem hefur lagt á­herslu á fram­úr­stefnu­lega list­sköpun, gjarnan í ó­hefð­bundnum sýningar­rýmum, allt frá stofnun 2015.

„Við viljum ein­mitt bjóða fólki að veita ó­hefð­bundnum stöðum meiri at­hygli en er vana­lega gert. Bjóða því upp á að búa til sinn eigin heim, að skynja um­hverfið á eigin for­sendum,“ segir Hall­veig.

„Það er líka spennandi að sjá hvernig ævin­týra- eða fantasíu­heimur manns lítur út þegar maður er ekki barn lengur. Kannski leynist þar eitt­hvað nýtt og jafn­vel enn skemmti­legra, eða kannski finnur maður út úr ein­hverju sem maður var búinn að reyna að komast að mjög lengi? Eða jafn­vel vissi ekki að maður ætti eftir að komast að?“

Fjórar sýningar verða á föstu­dag og laugar­dag í tengslum við lista­há­tíðina Innsævi á Reyðar­firði. Verkið verður einnig sýnt á Hamra­borg Festi­val 27. ágúst. Nánari upp­lýsingar má finna á Face­book-síðu Innsævis.

Hallveig Kristín og Arnar bjóða áhorfendum upp á framúrstefnulegt þátttökuverk á Reyðarfirði.
Mynd/Hrafnhildur Heiða