Mynd­band sem birt var í gær undir yfir­skriftinni #Ég­Trúi var tekið niður í dag en í mynd­bandinu stigu þjó­þekktir ein­staklingar fram til að sýna þol­endum of­beldis stuðning. Þær Edda Falak og Fjóla Sigurðar­dóttir, stjórn­endur hlað­varpsins Eigin konur, stóðu fyrir sam­stöðu­mynd­bandinu.

Edda Falak sagði í sam­tali við Vísi að leiðin­legt mál hafi komið upp en að boð­skapur mynd­bandsins hafi þó ekkert breyst. Þá sagði hún að mögu­lega yrði mynd­bandið klippt og á­kveðnir ein­staklingar fjar­lægðir og aðrir settir inn.

Í dag greindu tveir þátt­tak­endur í mynd­bandinu, þeir Magnús Sigur­björns­son og Pálmar Ragnars­son, frá því að þeir hefðu báðir farið yfir mörk kvenna og kváðust taka á­byrgð á gjörðum sínum.

Um­ræðan ekki án til­efnis

„Það er ljóst að ég á­samt öðrum þurfum að horfast í augu við það að hafa farið yfir mörk,“ skrifaði Magnús á Insta­gram síðu sinni.

„Mér þykir það leitt of við ég biðjast af­sökunar. Ég trúi því ein­lægt að um­ræðan sem hefur átt sér stað hafi fengið alla til að hugsa. Um­ræðan hefur ekki orðið til án til­efnis og ég trúi því að ég og við karl­menn getum gert betur.“

Magnús baðst afsökunar á Instagram.
Mynd/Instagram

Ekki full­kominn

Pálmar tók í sama streng á sinni Insta­gram síðu. „Ég sjálfur hef mjög lík­lega farið yfir mörk kven­fólks í mínu lífi. Á því vil ég taka á­byrgð og biðjast af­sökunar,“ skrifaði Pálmar.

„Ég er ekki full­kominn þó ég kjósi að taka þátt í um­ræðunni. Það er mjög mikil­vægt að það komi fram.“ Pálmar sagði karl­menn ekki mega úti­loka það að hafa farið yfir mörk annarra á ein­hverjum tíma­punkti.

„Ef við úti­lokum það og förum í vörn erum við að taka stórt skref aftur á bak í um­ræðunni. Ég hef brugðist góðri vin­konu þegar ég var yngri með því að taka ekki af­stöðu. Í kjöl­far þessarar um­ræðu hef ég reynt að bæta fyrir það.“

Hægt að bæta sig

For­tíðinni fáist ekki breytt en hægt sé að breyta betur í fram­tíðinni. „Við getum breytt því hvernig við tökum á­byrgð á okkur sjálfum og vinum okkar í fram­tíðinni.“

Mikil um­­ræða hefur átt sér stað um kyn­­ferðis­of­beldi síðustu daga í kjöl­far máls Sölva Tryggva­­sonar. Margir þol­endur hafa stigið fram á sam­­fé­lags­­miðlum í kjöl­farið í nýrri bylgju MeT­oo og vakið fólk til um­­hugsunar og hvatt til þess að rödd þol­enda fái að heyrast og að þeim sé trúað.