Vanessa Feltz, þáttastjórnandi hjá breska ríkisútvarpinu, greinir frá því í breskum fjölmiðlum að hún hafi „gengið í gegnum helvíti” þegar hún fékk sér magaband (e. gastric band).
Í magabandsaðgerðum er magaband sett utan um efsta hluta magans og þrengt að. Hægt er að stilla það eftir þörfum en það er fyllt með vökva sem minnkar magamálið.Slíkar aðgerðir eru einnig framkvæmdar á Íslandi.
Feltz fór í aðgerðina árið 2010 og varð strax mjög veik. Hún gat engu haldið niðri án þess að kasta upp.
Hún fór í magahjáveitu (e. gastric bypass) fyrr á þessu ári og hefur misst 25 kíló. Hún er sáttari í eigin skinni og segir allt saman hafa verið þess virði.
,,Ég gat aldrei borðað meðal fólks. Ég vissi aldrei hvenær ég myndi þurfa að kasta upp. Ég varð lífshættulega veik í fyrra. Suma daga gat ég ekki einu sinni komið vatnsglasi niður. Ég náði aldrei að setja rétt magn af vökva í magabandið.”
Læknar Feltz sögðu henni að bandið hefði færst til og að magahjáveita myndi leiðrétta staðsetningu bandsins.
Hún sló til, fór í aðgerðina og hefur síðan misst 25 kíló. ,,Þetta var helvíti, en þess virði. Ég vildi samt að ég hefði ekki eytt svona mörgum árum í basli með þetta band. Það hafði áhrif á skap mitt og félagslíf - og gerði mig rosalega veika.”
