„Þetta verður ekki jólalegra,“ segir Pétur Ásgeirsson, hönnuður Íslenska jólasveinaspilsins. Hann segir spilið einfalt og skemmtilegt og hannað fyrir krakka á öllum aldri.

„Í sumum spilum þarftu oft helst að vera kominn með háskólagráðu til að vita svörin en við fórum aðra leið,“ segir Pétur á léttu nótunum. Spilið er hugsað fyrir fjóra spilara í senn.

„Hér velurðu þér jólasvein og markmiðið er að gefa þægum krökkum í skóinn. Þetta er mjög einfalt en samt alveg krefjandi. Það fylgja spurningaspil og spurningarnar eru til dæmis Hvað eru jólasveinarnir margir? Hver er þinn uppáhalds jólasveinn? Eru jólasmákökur góðar? Þannig að öll svörin geta verið rétt,“ útskýrir Pétur.

Hann segir Grýlu, Leppalúða og Jólakettinum að sjálfsögðu bregða fyrir.