Níels keypti nýverið ásamt fjölskyldu sinni og samstarfsfélaga rekstur á skemmtilegu íbúðahóteli sem ber nafnið Castle Harbour á Los Cristianos á Tenerife, einum vinsælasta sólarstrandarstað Íslendinga. Réðust þau í endurbætur á hótelinu en við sundlaug þess er mexíkóski veitingastaðurinn El Paso sem Níels hefur tekið alveg í gegn en Níels býr að áratuga reynslu af veitingarekstri á Íslandi.

Vala bragðar á kanarískum kartöflum.

Vala heimsótti Tenerife í fyrsta sinn í sumar og mælti sér mót við Níels á veitingastaðnum hans þar sem þau gæddu sér meðal annars á frægasta rétti eyjarskeggja, Papas arragudas, söltuðum kartöflum með bragðmiklum sósum. Vala brá sér í blaðamannsstellingarnar og spurði Níels út í lífið á sólríku eyjunni sem er svo vinsæl hjá Íslendingum.

Elti bróður sinn til Tenerife

„Bróðir minn hefur verið búsettur hér á Tenerife í 11 ár ásamt fjölskyldu sinni og líður svo vel að hann hefur oft hvatt mig til að flytja hingað út,“ útskýrði Níels aðspurður hvað hafi orðið til þess að hann flutti búferlum ásamt fjölskyldu. „Síðasta vor ákvað ég svo að slá til og flytja hingað í sólina.“ Þar sem Níels hafði verið í hótel- og veitingahúsageiranum á Íslandi í mörg ár lá beinast við að halda því áfram og varð íbúðahótelið Castle Harbour fyrir valinu enda skemmtilega fjölbreytt með mismunandi íbúðum, innréttuðum á ólíkan máta auk þess sem staðsetningin er frábær. „Veitingastaðurinn hefur svo orðið að mínu barni því ég tók hann alveg í gegn og breytti í spennandi stað þar sem mér finnst sjálfum gott að borða.“

Níels við hótelið sem hann hefur keypt reksturinn á ásamt fjölskyldu sinni og viðskiptafélaga.

Rólegt andrúmsloft kom á óvart

Aðspurður hvað hafi helst komið honum á óvart á nýjum stað svarar Níels: „Það var meðal annars hversu mikið rólegra andrúmsloftið hér er en heima á Íslandi og hversu skemmtilegt það er að vinna í svona sólríku umhverfi. Náttúrufegurðin hér er einstök og ótrúlega fjölbreytt og því hefur eyjan upp á svo miklu meira að bjóða en bara strandsvæðin og sundlaugarnar.

Íbúðahótelið Castle Harbour er við Los Cristianos ströndina á Tenerife,

Svo er það þetta dásamlega veðurfar þar sem sólin skín alla daga og aldrei verður of heitt vegna þessarar ótrúlega ljúfu hafgolu sem leikur um eyjuna. Alveg magnað hvað hér er alltaf þægilegt og gott veður því ef maður skoðar eyjuna á landakorti sést að hún er staðsett rétt vestur af Saharaeyðimörkinni í Afríku.“

Nýverið festi Níels svo í samvinnu við fleiri kaup á barnum St. Eugenes á Adeje-ströndinni en hann hefur verið starfræktur frá árinu 1987 og er einn sá frægasti á eyjunni. „Þetta er mjög stór bar þar sem verður fjölbreytt dagskrá með beinum íþróttaútsendingum með risaskjáum, lifandi tónlist og skemmtiatriðum og því mjög skemmtilegt að koma einnig að því verkefni.“