Hannah Bol­ton er að­eins 31 árs en greindist ný­verið með brjósta­krabba­mein. Hún segir að ef ekki væri fyrir opin­skáa um­ræðu af hálfu raun­veru­leika­stjörnunnar Molly-Mae Hague væri hún mögu­lega ekki á lífi en Molly-Mae greindi frá því í septem­ber á sam­fé­lags­miðlum sínum að hún hefði látið fjar­lægja hnúða af líkama sínum á síðasta ári.

Bol­ton sá um­fjöllun Molly-Mae fyrir til­viljun eftir að hún svæfði son sinn á fyrsta degi í sam­eigin­legu fríi þeirra í Portúgal í fyrra. Stuttu seinna fann hún hnúð í brjósti sínu sem hún lét skoða nokkrum vikum seinna við heim­komu. Þá kom í ljós að um var að ræða brjósta­krabba­mein og hún viður­kennir að ef Molly-Mae hefði ekki deilt sinni sögu hefði hún lík­lega aldrei skoðað brjóstin á sér.

„Á­kvörðun Molly-Mae að deila þessari færslu bjargaði lífi mínu,“ segir hún í við­tali við breska miðilinn Daily Mail.

„Eftir að ég sá færsluna þreifaði ég á brjóstinu og fann lítinn hnúð neðar­lega á vinstra brjósti mínu fyrir utan geir­vörtuna. Hann var harður og á stærð við vín­ber. Ég hafði ekki fundið fyrir honum áður, hafði ekki séð hann, eða fundið fyrir honum fyrr en á þessum tíma­punkti.“

Bol­ton er núna í lyfja­með­ferð og telur lík­legt að krabba­meinið væri orðið miklu verra á þessum tíma­punkti ef ekki hefði verið fyrir færsluna.

Hún segir að það eina sem hún hugsaði um eftir að hún fékk greininguna í nóvember var hvað myndi verða um drenginn hennar sem er föður­laus.

„Þegar mér var sagt að ég væri með krabba­mein fór ég bara að hugsa um það að ég væri að deyja,“ segir Bol­ton en hún hefur núna lokið fjórum lyfja­með­ferðum og á alls tólf eftir. Eftir það fer hún í að­gerð og geisla­með­ferð.

Hún hvetur aðrar konur til að fylgjast vel með brjóstum sínum, að þreifa reglu­lega á þeim, að heim­sækja lækninn sinn ef þeim finnst eitt­hvað grun­sam­legt og að krefjast þess að tekin sé brjósta­mynd.