Litlu mátti muna þegar þung hljóðvistarplata féll ofan á skrifborð í stóra skjálftanum sem fannst skömmu fyrir tvö í dag.

Engum varð meint af þegar platan losnaði skyndilega úr loftinu á skrifstofu Birtingahússins á Laugavegi en tilviljun réð því að Jón Heiðar Gunnarsson sat þar ekki á sínum stað.

Hætti við á síðustu stundu

„Ég ætlaði semsagt að fara að í vinnuna í morgun,“ segir Jón í samtali við Fréttablaðið. Líkt og margir hefur hann þurft að venjast því að vinna heiman frá sér undanfarin misseri en íhugaði að mæta á skrifstofuna í dag þar sem fjöldi nýrra smita væri aftur tekinn að lækka.

„En svo hugsaði ég að tölurnar væru alltaf lægri um helgar þannig að ég ákvað að taka bara einn dag í viðbót heima. Ef ég hefði farið þá hefði ég setið undir þessu og fengið þetta beint í hausinn. Maður veit ekki alveg hvort maður hefði stórslasað sig þarna en þetta er nokkuð þung plata svo þetta hefði getað farið illa,“ bætir Jón við.

Hefði líklega setið sem fastast í sætinu

Í stað þess sat Jón heima í Garðabænum og fann vel fyrir skjálftanum.

„Ég er ekki þessi hvekkta týpa. Viðbrögðin mín voru ekki að stökkva upp heldur sat ég bara rólegur og horfði á veggina hristast. Svo ég hugsaði einmitt að ef ég hefði verið niðri í vinnu þá hefði ég örugglega brugðist eins við, bara setið í sætinu mínu og fengið þetta í hausinn,“ segir Jón léttur í bragði.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur gefið út að engar tilkynningar hafi borist um meiðsl á fólki vegna skjálftahrinunnar í dag. Ljóst er að litlu mátti muna í þessu tilviki og þakkar Jón kófinu fyrir að hafa haldið sig heima.