Óhætt er að segja að ný heimildaþáttaröð um Harry Bretaprins og eiginkonu hans, hertogaynjuna Meghan, sé á allra vörum í Bretlandi en fyrri hluti þáttaraðarinnar kom út í dag.

Þáttaröðin er á Netflix og komu fyrstu þrír þættirnir í dag. Þáttaröðinni lýkur með þremur þáttum til viðbótar í næstu viku.

Síðastliðna þrjá tíma hefur myllumerkið #HarryandMeghanNetflix verið vinsælasta umræðuefni Englendinga á Twitter og fer fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan mikinn á Twitter-reikningi sínum og segir þetta vera verra en þáttaraðirnar um Kardashian-fjölskylduna.

Þá eru fjölmiðlar eins og Guardian og Daily Mail með beina lýsingu til að fylgjast með viðbrögðum Englendinga og að greina fyrstu þættina.

Í fyrstu þáttunum fá áhorfendur að heyra söguna af því hvernig þau Harry og Meghan kynntust í gegnum samskiptamiðilinn Instagram og hvernig Meghan var tekið innan konungsfjölskyldunnar.

Þá talar Harry um móðurmissinn en eins og frægt er lést Díana prinsessa í bílslysi þegar hann var á þrettánda aldursári.

Samkvæmt heimildum Daily Mail er von á yfirlýsingu frá Buckingham Palace um innihald þáttaraðarinnar en enginn úr röðum konungsfjölskyldunnar var tilbúinn að koma í þáttaröðina.