Ef litið er á vetrar­línur stóru tísku­húsanna fyrir vetrarmisserið eru eftir­farandi straumar sérstaklega á­berandi:

Rauður litur

Rauður litur var á­berandi á tísku­pöllunum fyrir þetta tíma­bil, hjá öllum kynjum, og því er upp­lagt að nýta tæki­færið á að­ventunni og klæðast þessum fal­lega og jóla­lega lit. Það eru til mörg lit­brigði af rauðum og því ættu flestir að finna eitt­hvað klæði­legt og skemmti­legt. Prófið rauðan trefil, rauða peysu eða rauðar sokka­buxur.

Fyrirsæta sýnir föt úr smiðju Helen Anthony Ltd á tískuvikunni í London í september . EPA-EFE/NEIL HALL
Fréttablaðið/EPA
Hönnun úr smiðju Velasquez á tískuvikunni í Madrid í vor. EPA-EFE/Mariscal

Af­slappaður stíll

Á­hrifa heims­far­aldurs gætir víða í tískunni og það endur­speglast vel í þessari tísku­bylgju. Í fyrra voru hettu­peysur og þægi­legur í­þrótta­fatnaður á hvers manns orði en fyrir vetrar­tíma­bilið 2021 hafði þessi tíska slípast ör­lítið til.

Afslappaður stíll frá ítalska tískurisanum Fendi.EPA-EFE/MATTEO BAZZI
Hönnun frá P. Andrade frá tískuvikunni í Brasilíu í nóvember. Fréttablaðið/EPA

Ryk­frakki

Ljós­brúni, klassíski ryk­frakkinn virðist halda vin­sældum sínum fram á næsta ár. Það ætti að vera auð­velt að finna notaðan ryk­frakka á nytja­markaði, en í þessari tísku má jakkinn endi­lega vera stór með flottu belti. Það má líka bregða á hann hvaða belti sem er og skapa þannig frum­lega heildar­mynd. Þá er þessi tíska sér­lega vetrar­væn þar sem upp­lagt er að klæðast góðri peysu undir jakkanum.

Hönnun frá Joao Pimenta á tískuvikunni í Brasilíu í lok nóvember. EPA-EFE/Sebastiao Moreira

Víðar og litríkar buxur

Þús­aldar­kyn­slóðinni til mikillar gremju eru þröngar buxur eða skinny-jeans al­gjör­lega úti, og skálmarnar eiga að vera víðar. Skemmti­leg mynstur, kögur, æpandi litir og lág mittis­hæð eru það sem tekið hefur við.

Litadýrð og þægileg snið eru í forgrunni í buxnatískunni þetta misseri. Hönnun frá Meninos Rei. EPA-EFE/Sebastiao Moreira

Peysu­vesti

Peysu­vestið hóf inn­reið sína á ný árið 2020 og á bæði snerti­fleti við endur­komu þús­aldar­tískunnar og þæginda­tískuna sem kom með aukinni inni­veru og vinnu að heiman. Hvers vegna vera í heilli peysu þegar þú getur verið í peysu­vesti? Vestin eru hlý og nota­leg og má bæði nota með belti og flottri skyrtu eða bol.

Peysuvesti frá Sergio Villasante. Fréttablaðið/EPA

Gervi­feldur og gervi­leður

Síðustu ár hefur feldur verið á út­leið á tísku­pöllunum en til dæmis hafa Versace og Gucci hætt viðskiptum við loðdýraræktendur með öllu. Gervifeldurinn kemur þó sterkur inn. Þá er vínyll, latex og önnur plast­efni framleidd í alls­konar litum. Slík efni voru sér­stak­lega vin­sæl fyrir tuttugu árum og hafa nú snúið aftur á tískupallana, þannig að það er aldrei að vita nema frænka þín lumi á flottum skóm sem gætu hæg­lega slegið í gegn á dangólfinu í vetur.

Ítalska Versace tískuhúsið hefur bæst í stækkandi hóp tískuhúsa sem nota eingöngu gervifeldi í hönnun sinni. EPA-EFE/DANIEL DAL ZENNARO

Hlýra­kjólar

Kjólar með þunnum hlýrum eru á­fram í tísku og eru í senn spari­legir og þægi­legir. Það má líka nota þá yfir boli fyrir þau sem það kjósa. Hvítir, smaragðs­grænir, rauðir og svartir eru sér­lega smart þetta tíma­bilið.

Hlýrakjóll frá Versace úr vetrarlínu ársins. EPA-EFE/DANIEL DAL ZENNARO