Þorkell Máni Pétursson hætti nýlega með útvarpsþáttinn Harmageddon sem hann og Frosti Logason höfðu haldið úti í drjúgan áratug og segist sýna sitt sanna sjálf með sjálfshjálparbók sinni fyrir karlmenn sem vita að sjálfshjálparbækur eru bara fyrir aumingja.

„Ég get sagt þér það. Og hvað viltu að ég segi þér meira?“ spyr útvarpsmaðurinn fyrrverandi og markþjálfinn með sínum þunga en einlæga tón og áréttar að þótt hann hafi ekki ætlað sér að stuða neinn með bókinni muni sjálfsagt eitthvað í henni hafa þau áhrif á einhverja en það sé þá bara vel meint.

Fyrir Google-kynslóðina

„Þessi bók er skrifuð fyrir Google-kynslóðina og alla hina karlmennina á aldrinum fimmtán til 52 ára. Hún snýst um að maður skilji tilgang allra hluta og maður sé ekki að eyða orku sinni í einhvern óþarfa,“ útskýrir Máni sem var kominn með titil bókarinnar fyrir um tíu árum.

„Ég skrifaði þessa bók margoft og niðurstaðan varð einmitt að skrifa hana fyrir Google-kynslóðina,“ heldur Máni áfram og segist hafa horft til þess hvernig strákarnir hans lesa bækur og hvernig þeir sækja upplýsingar.

„Þeir sækja þær bara miklu hraðar heldur en við og það eru engar óþarfa málalengingar um eitt né neitt. Bókin er á kjarnyrtri íslensku og þú ert fljótur að sækja upplýsingarnar.“

Ekki góður í þessu öllu

Máni segir bókina teygja sig yfir ansi breitt svið og hann styðjist til dæmis við reynslu sína sem markþjálfi. „Út af því að ég er nú lærður markþjálfi þá er einn kaflinn um markmið, hvernig þú setur þér markmið og af hverju við klúðrum þeim.“

Þá hverfast aðrir kaflar meðal annars um samskipti, tilfinningasambönd, peninga og samfélagsmiðla. Máni lætur þess þó getið að ekki sé þar með sagt að hann sé eitthvað sérlega sterkur á öllum þessum sviðum og lesendur munu örugglega furða sig á meiningum hans um hitt og þetta.

„Í bókinni mæli ég til dæmis með því að hafa ekki skoðanir á öllu og hafa vit á því að þegja. Það tengir það enginn við mig. Skilurðu mig? Og að vera ekki gramur. Það tengir það bara enginn við mig,“ segir Máni og bætir við að hann viti hins vegar að þetta séu góð ráð. „Þetta snýst bara um að fara eftir því.“

Máni bendir einnig á að margt í bókinni teljist til almennrar skynsemi. „Og við vitum alveg að við eigum ekki að vera þessi gaur. En við förum ekki eftir því og það er vandamálið. Af hverju eigum við að nenna að vera í skóla? Af hverju eigum við að nenna að vera í þessari vinnu sem við erum í? Hver er tilgangurinn?“

Reynsluheimur karla

Máni segist upprunalega hafa ætlað að hafa bókina miklu dýpri. „Þetta er ekki heimspekileg bók. Hún átti að vera það fyrst en ég hætti við það. Hún átti að vera dýpri en ég áttaði mig á því að fólk nennir því ekki,“ segir Máni glettinn og heldur áfram:

„Uppáhalds bækurnar mínar eru oft ljóðabækur því ég er með svo mikið ADHD og ég nenni ekki öðru,“ segir Máni sem kýs frekar að bíða bara eftir bíómyndunum sem hljóti að verða gerðar eftir bókum sem teljist svo góðar. Bókin hans er þess vegna eins auðveld og aðgengileg og frekast er unnt og hann segir hana því seint muni koma út á hljóðbók.

„Hún var skrifuð fyrir lestur. Ef þú vilt vita eitthvað þá flettirðu því upp á núll einni í hnitmiðuðu máli. Þess vegna tók mig svona ógeðslega langan tíma að skrifa þessa bók,“ segir Máni sem sótti innblástur í reynslu sína af lífinu.

„Margt verður til í samtölum mínum við vini mína og þeim árekstrum sem við höfum lent í í lífinu. Það eru peningavandræði, tilfinningavandræði og vandræði í samskiptum við fólk og svona,“ segir Máni sem stendur við það að bókin sé fyrir ótrúlega breiðan aldurshóp.

Lífið eftir Harmageddon

„Það verður enginn karlmaður verri af að lesa þessa bók,“ segir Máni sem nú þarf ekki að hafa skoðun á öllu.

„Það er þrælþægilegt að stimpla sig inn á gremjuvaktina, keyra þetta áfram og hafa skoðun á hlutunum,“ segir Máni fullur tilhlökkunar.

Máni stýrði þættinum Harmageddon ásamt Frosta í drjúgan áratug
fréttablaðið/ernir