Þor­björg Alda Birkis Marínós­dóttir, betur þekkt sem Tobba Marínós, kom með hvelli inn á sjónar­svið ís­lenskra fjöl­miðla og er nú rit­stjóri DV er þekkt fyrir mikinn dugnað. Hún er gestur Sölva Tryggva­sonar í hlað­varps­þætti kappans.

Skrif á bókum, stjórnun í fyrir­tækjum, rit­stjórn og sjón­varp er meðal þess sem hún hefur unnið við og það nýjasta er fram­leiðsla á mat­vörum.

Iðnaðar­varan við­bjóður

„Mér finnst við­bjóður hvað það er mikið af því sem við borðum sem er ekki mat­vara, heldur iðnaðar­vara. Við vitum ekkert hvaða á­hrif þetta hefur á líkamann okkar til lengri tíma og við erum lík­legast ekki hönnuð fyrir að borða þetta. Ég hef alltaf þurft að hugsa um hvað ég læt ofan í mig, bæði af því að ég á auð­velt með að fitna og mér líður líka bara mjög illa ef ég borða ó­hollt.

Ég lagði mikið upp úr því með mín börn að þau fengju holla næringu og ég tók eftir því að það var bara mjög erfitt að finna hollt morgun­korn, þannig að ég fór að búa til mitt eigið gra­nóla úr banönum, fræjum, rúsínum, höfrum, kanil og hnetum. Svo var þetta orðið þannig að vinir og vanda­menn fóru að koma og vildu alltaf fá krukkur af þessu með sér heim.

Svo er það Steinunn Ó­lína vin­kona mín, sem er mjög hug­rökk, sem segir mér að ég þurfi að fara með þetta í búðir. Þannig að ég fór í að stofna fyrir­tæki sem ég sá fyrir mér að yrði voða krútt­legt, en svo vildi Bónus fá þetta inn og það þýðir bara mörg hundruð kíló á mánuði. Þannig að ég fór í að búa til iðnaðar­eldús sem var síðan orðið of lítið strax eftir 3 mánuði.

Við seljum núna Gra­nóla fyrir 4-5 milljónir á mánuði þó að ég sé enn bara með eina tegund. En það eru fleiri á leiðinni og líka hafraklattar. Grunn­reglan er sú að ég myndi ekki fram­leiða neitt sem ég myndi ekki bjóða yngsta barninu mínu upp á.“

Fólk þarf stundum hvíld á þyngslunum

Tobba segir í þættinum að það hafi verið nauð­syn­legt að breyta að­eins til þegar hún tók við sem rit­stjóri DV. Meðal annars að banna fólk úr kommenta­kerfum og fleira í þeim dúr:

„Það koma stundum vikur sem eru upp­fullar af ömur­legum fréttum. Co­vid fréttir, gróft of­beldi gegn börnum, kyn­ferðis­of­beldi og ein­hver við­bjóður. Þannig að stundum langar þig bara að skrifa 10 fréttir um Kim Kar­dashian og maður finnur það líka að létt efni fær meiri lestur núna, af því að fólk þarf stundum bara hvíld á þyngslunum....varðandi kommenta­kerfin þá er það bara þannig að ef ég sé eitt veru­lega ljótt komment, þá eyði ég því og ég sé um­ræður sem eru orðnar mjög ljótar, þá bara loka ég fyrir kommentin.

Ef það eru of­beldis­mál eða við­kvæm mál þá bara lokum við fyrir komment, en ég er að gera til­raunir með þetta núna. Oft er þetta fal­legt og getur verið góður vett­vangur fyrir skoðana­skipti, en ég hef enga þolin­mæði fyrir skít­kasti og ljótum kommentum. Stundum hringir fólk og kvartar yfir því að það hafi verið lokað á það og þegar ég spyr það hvað það hafi skrifað kemur bara í ljós að það var ein­hver við­bjóður.“

Eðli málsins sam­kvæmt fylgi þessarri tegund af blaða­mennsku oft alls kyns hlutir, en hún segist finna það að fólk sé alla jafna já­kvætt út í DV:

,,Frétta­stjórinn okkar, Erla Hlyns, hefur oftar en einu sinni unnið mál fyrir mann­réttinda­dóm­stól Evrópu og hún er mjög vönduð og grjót­hörð, þannig að henni fylgir viss gæða­stimpill. Og starfs­fólkið mitt á DV er ó­trú­legt. Ég sit stundum þarna og dáist að þeim. Þau slást oft um hver á að taka erfið sím­töl og eru bara ó­trú­lega vönduð í sínum störfum.

Það er í­trekað fólk að hringja í okkur sem ætti að hringja í lög­regluna eða lög­fræðinga og við erum oft að eiga við fólk í gífur­legri geðs­hræringu og það er oft bara mjög erfitt....Eitt það fyrsta sem ég gerði þegar ég tók við sem rit­stjóri var að biðja um að okkur yrði út­vegaður sál­fræðingur. Það er oft gengið mikið á blaða­mennina, sér­stak­lega í þessum erfiðustu málum, þar sem fólk hefur mikla þörf fyrir að láta heyra í sér. Það er grátandi fólk í símanum, stundum brún um­slög sem koma heim til manns og það kemur meira að segja fyrir að það sé fólk komið heim til blaða­manna út af ein­hverjum málum," segir Tobba.

Alveg komið heim til sín og öskurgrenjað

Hún segir það koma fyrir að hún taki vinnuna inn á sig:

,,Ég hef alveg komið heim til mín eftir erfiðustu dagana og sest á gólfið og öskur­grenjað yfir ein­hverjum við­bjóði og erfiðum málum. Ég á ekki gott með að ýta hlutum frá mér og gleyma þeim, heldur hef ég til­hneigingu til að fá á­ráttu­kenndar hugsanir um hryllinginn. Ég ætlaði á tíma­bili að sækja um í lög­reglunni, en það var ein­mitt þetta sem ég hefði lík­lega ekki höndlað við það starf. Eftir að ég eignaðist börn er ég líka enn­þá með­vitaðri um hvað lífið getur verið við­kvæmt og dýr­mætt."

Tobba segir í þættinum frá árunum þegar hún var blaða­maður undir stjórn Ei­ríks Jóns­sonar og Mikaels Torfa­sonar:

„Það fyrsta sem Ei­ríkur Jóns­son kenndi mér var að ef ég væri hrædd við að taka símann ætti ég að vinna við eitt­hvað annað. Maður finnur það hjá yngri blaða­mönnum að þeim finnst erfiðara að hringja eftir að sam­fé­lags­miðlarnir komu. Fyrsti dagurinn minn í starfi blaða­manns var þannig að rit­stjórinn og að­stoðar­ri­stjórinn stóðu yfir mér og hlustuðu á mig taka símann.

Þetta voru Mikael Torfa­son og Ei­ríkur Jóns­son og þeir voru ekki að biðja um um ein­földustu sím­tölin. Ég var ný­komin úr fjöl­miðla­fræði frá Bret­landi og svitnaði bara út í eitt, en þetta var góður skóli….Mikael hefur lík­lega sagt þér frá því þegar hann kom í þáttinn hjá þér að það voru hafnar­bolta­kylfur undir borðum og það var oft skraut­legt að vinna á DV á þessum tíma. Alls konar fólk í mis­jöfnu á­standi að koma inn í húsið og DV var oft sam­nefnari fyrir fólk sem var ó­sátt við fjöl­miðla al­mennt.“