Sýningin var opnuð 1. desember og stendur til 18. janúar. Hún hefur yfirskriftina Liquida og sýningarstjóri er Sasha Bogojev. Helena Margrét sýnir tíu verk unnin í olíu og akrýl á striga.

„Myndirnar sýna manneskju og líkama hennar sem lúta sömu lögmálum og vökvi. Áherslan er á hreyfingu, flæði og endurspeglun og það hvernig hlutir brenglast í vatni og vökva. Hún er að hellast, sullast, leka, bráðna, drjúpa og fljóta,“ segir Helena Margrét og tekur dæmi:

„Persónan er kannski að hellast úr flösku yfir í vínglas, hún sullast síðan þaðan og myndar poll á öðru verki. Í myndunum er mikið af flöskum, glösum og gleri sem endurspegla brothætt ástand persónanna sem geta skolast burt. Um leið og ég er að sýna það viðkvæma og fíngerða er ég að fanga hreyfingu á því augnabliki sem hún á sér stað.

Samtímis sé ég fyrir mér það sem gerðist rétt áður en myndefnið varð til og það sem mun gerast eftir á.“Öll verkin á sýningunni seldust rétt fyrir opnun og á opnuninni sjálfri. Allnokkrir kaupendur eru erlendir listaverkasafnarar. „Viðtökurnar komu mér mjög á óvart,“ segir Helena Margrét.

Hún segir ákaflega gaman að geta loks sýnt verk í sýningarsal. „Eftir að hafa verið í Íslandsbúbblunni í Covid var óskaplega gaman að fara utan og sýna þar. Allan tímann úti var ég með smá óraunveruleikatilfinningu.“

Helena Margrét lærði myndlist við Myndlistarskólann í Reykjavík, Konunglega listaháskólann í Haag í Hollandi og útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist úr LHÍ árið 2019.

Fram undan hjá henni er undirbúningur fyrir sýningu í Ásmundarsal í október, það verður samsýning hennar og kærastans Hákonar Arnar Helgasonar sviðshöfundar. „Við munum vinna ferlið saman og sameina sviðsverk og myndlist,“ segir Helena Margrét.