Drin Bujupi starfar sem klæðskeri hjá sænska tískuhúsinu Acne Studios í Stokkhólmi en þar hóf hann störf eftir útskrift frá ESMOD, sem er einn virtasti tískuskóli heims og staðsettur í París.Leið Drin inn í hönnunar- og tískuheiminn er um margt óvænt og skemmtileg. Eftir útskrift frá Menntaskólanum við Hamrahlíð skráði hann sig í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Um sumarið bauðst honum hins vegar mánaðarkúrs í hönnun og klæðskurði við ESMOD í París og eftir það var ekki aftur snúið.

„Eftir kúrsinn varð mér ljóst að þetta var það sem ég vildi gera svo ég kom aftur heim til Íslands að sumri loknu, hætti við að fara í HR og sótti um í ESMOD. Allir heima voru mjög hissa yfir þessari ákvörðun en þau sjá núna að það var einhver innistæða í öllu þessu brjálæði.“

Drin fæddist í Kósovó árið 1997 en fjölskylda hans flutti til Íslands árið 2001 þegar hann var fjögurra ára gamall.

„Pabbi átti fjölskyldu hér og þau hjálpuðu foreldrum mínum að finna störf og koma sér fyrir en við bjuggum í Kópavogi. Foreldrar mínir unnu alls konar störf til að reyna að byggja sem besta framtíð fyrir mig og yngri systkini mín.“

Þróun kápu sem var partur af línunni.

Áhuginn magnaðist

Hann segir móður sína vera flinka saumakonu og byrjaði hann ungur að fylgjast með henni vinna við saumavélina heima.

„Ég byrjaði sjálfur að prófa að sauma með henni í kringum fimmtán ára aldurinn en aldrei af neinni alvöru fyrr en ég varð 17-18 ára. Áhugi minn á flíkum og saumi stigmagnaðist með árunum við að sjá vinnu hennar en ég hélt þó áhugamálinu mikið fyrir mig og deildi því ekki með öðrum. Ég vissi hvað háskólagráða var þýðingarmikil fyrir foreldra mína og mér leið eins og ég þyrfti að klára eina gráðu fyrir þau áður en ég gæti einbeitt mér að því sem ég sjálfur vildi gera.“

Hér var Drin að þróa útskriftarlínuna, prófa efni og gera saumæfingar.

Frábær millivegur

Námið við ESMOD hófst haustið 2019 og hann útskrifaðist í október 2021.

„Í náminu var lögð mikil áhersla á tæknilega getu, klæðskurð og saum, samhliða skapandi hönnun. Þetta reyndist mér frábær millivegur þar sem ég tel að styrkleikar mínir liggi þarna á milli þessara sviða. Ég hlaut tvær viðurkenningar við útskriftina, svokallaða gullnál og einnig verðlaun fyrir bestu línu úr karladeildinni (e. menswear specialization) frá dómnefnd skipaðri af fólki úr stórum tískuhúsum í París.“

Útskriftarlína Drins var byggð á verki eftir Christian Boltanski, þar sem hann safnaði minningum úr æsku í alls konar formi.

„Ég staðsetti mig inni í konseptinu hans og fór að rýna í mína eigin æsku. Ég safnaði alls konar minningum og stúderaði djúpt sögu fjölskyldu minnar í gegnum ýmis form: myndir, efnisbúta, gamlar flíkur foreldra minna, samtöl við ömmu og afa í Kósovó og svo framvegis. Að lokum vildi ég að útskriftarlínan mín yrði samblanda af þessari persónulegu sögu og sterkri tæknilegri þekkingu í klæðskurði og saumi.“

Hér klæðist Arber Sefa eftir ljósmynd af afa Drin Bujupi.

Agað umhverfi

Drin segir námið hafa verið mjög krefjandi og mikið einblínt á tækni.

„Þetta var verulega agað umhverfi með ströngum kennsluaðferðum. Allt var gert með höndunum og lítið um stuðning við hönnunar- eða klæðskurðarhugbúnað, eins og er oft í boði í öðrum skólum. Þetta var allt mjög hrátt, tæknilegt og ekki mjög vinsælt meðal nemenda. Eftir á að hyggja þá reyndist mér þetta mjög vel, kannski af því að leið mín inn í fatahönnun var ekki í gegnum teikningar eða að setja fram hugmyndir á blað, heldur fór ég beint að vinna með efni, skæri og saumavélina hennar mömmu.“

Nemendurnir í skólanum koma úr öllum áttum en flestir eru þó Frakkar.

„Þarna var líka mikið af Kínverjum og Japönum. Samkeppnin var mikil og töluverður fjöldi nemenda hættir snemma á skólagöngunni svo maður sá fljótt að maður þyrfti að vera á tánum. Það er lítill tími til þess að rækta vinasambönd á meðan á náminu stendur en ég hef haldið góðu sambandi við skólafélaga mína eftir útskrift og það er gaman að fá að fylgjast með þeim taka næstu skref í bransanum. Síðan hitti ég þau reglulega þegar ég er í París.“

Samstarf Drin og Arber Sefa vakti athygli.

Boðið starf hjá Acne Studios

Snemma á lokaári sínu hóf Drin viðræður við nokkur tískuhús í París varðandi starfsnám, meðal annars hjá Acne Studios þar sem honum var boðið sex mánaða starfsnám.

„Ég hóf störf í klæðskeradeildinni í höfuðstöðvum þeirra í Stokkhólmi og starfaði náið með klæðskerum og hönnuðum við að hjálpa þeim að láta hugmyndir þeirra verða að veruleika. Mér var að lokum boðið starf sem klæðskeri þar sem ég starfa nú fyrir bæði kvenna- og karlafatnað í „junior“ stöðu.“

Arber Sefa, belgíski portrettlistamaðurinn, klæddist flíkum úr útskriftarlínunni frá toppi til táar.

Harður bransi

Tískubransinn er harður og samkeppnin þar er mikil. Það er ekki sjálfsagt að komast inn fyrir eins og Drin hefur gert, en hann þakkar árangur sinn helst því að hafa einfaldlega brett upp ermarnar og unnið vel að því sem hann trúði á að hann gæti gert vel.

„Ég hef fundið að allar þessar áherslur í tískubransanum um mikilvægi tengsla og sterks tengslanets reynast oft skammvinnar. Mér finnst betra að eyða tímanum í að vinna að því að byggja upp þekkingu og reynslu. Ég hef reynt að taka foreldra mína til fyrirmyndar, með metnaði og dugnaði, og reynt að gefa þeim til baka eitthvað af því sem þau hafa fórnað fyrir mig til að eiga alla þessa möguleika sem ég hef notið góðs af. Að fá að alast upp á Íslandi, í íslensku kerfi og að verða Íslendingur hafa verið algjör forréttindi.“

Hér má sjá útskriftarlínuna frá Drin Bujupi í heild sinni en hann útskrifaðist frá ESMOD í París.

Vinnur hörðum höndum

Ferillinn hefur þróast mjög hratt hjá Drin og segist hann ætla að halda áfram að vinna hörðum höndum, læra nýja hluti og byggja ofan á þá reynslu sem hann hefur öðlast hingað til.

„Þó ég sé mjög þakklátur fyrir tækifærin sem ég hef á meginlandinu, þá væri gaman að koma aftur heim á einhverjum tímapunkti og sjá hvernig það gengur. Kannski mun ég stofna mitt eigið merki í framtíðinni en eins og staðan er í dag hef ég ekki mikla þörf á því að drífa mig í þeim málum.“

Hægt er að fylgjast með Drin á Instagram @drin_bujupi.