Kristján Jóhanns­son, óperu­söngvari, er nýjasti gesturinn í pod­casti Sölva Tryggva­sonar. Í þættinum lýsir hann tímanum þegar hann ferðaðist um allan heim og var einn stærsti óperu­söngvari veraldar.

,,Fyrir 40 árum síðan, að gutti frá Akur­eyri væri komin í þennan stóra heim listanna, var ekki sjálf­sagt og ég fann fyrir á­kveðnum for­dómum, sem ég lærði síðan að eyða smám saman í gegnum tíðina. Ég þurfti bara að læra á þennan heim og taka fólki eins og það er. Kannski var ein­hver vottur af karl­rembu í mér, en ég rakst oft á veggi og varð önugur í sam­skiptum og stundum urðu á­rekstrar.

En eftir að konan mín tók þessi sam­skipti meira að sér byrjaði þetta allt að ganga betur. Mitt hlut­verk var þá aðal­lega að syngja eins og maður. Þetta var yndis­legur tími að fá að ferðast um allan heim og koma fram í stærstu óperu­húsum heims. Við vorum ung á þessum tíma ég og Sigur­jóna konan mín og hún enn yngri en ég. En við á­kváðum strax að við ætluðum að vera í þessu saman og við ferðuðumst saman hönd í hönd um allan heim."

Kvöldstund með Berlusconi

Kristján hefur búið mjög lengi á Ítalíu og átti þar meðal annars kvöld­stund með þá­verandi for­sætis­ráð­herra Ítalíu, Syl­vio Berlu­sconi.

,,Ég hef auð­vitað verið þeirrar gæfu að­njótandi að fá að hitta alls konar fólk í gegnum vinnuna og öll ferða­lögin og ég hitti Berlu­sconi tvisvar sinnum og mér fannst hann alveg hörku­kall. Bráð­skemmti­legur og stutt í hlátur og svo er hann líka músíkant og mikill gleði­gjafi.

Ég fékk að verja kvöld­stund með honum og hafði virki­lega gaman að því. Ég er alveg sann­færður um að mjög mikið sem er sagt um hann er lygi. Það er búið að hengja slæman stimpil á karl­ræfilinn, en ég er alveg viss um að það er búið að taka mjög mikið úr sam­hengi þegar kemur að honum.”

Elskar Ítalíu

Kristján er búinn að vera á Ítalíu lengi og elskar land og þjóð.

,,Ítalía er yndis­leg og mér finnst ég á ein­hvern hátt vera hálf­gerður Ítali. Þetta er upp til hópa yndis­legt fólk, opið og til­finninga­ríkt og getur rifist og elskað þig á sama tíma. Stutt í brosið og eldinn.

Það er ekkert gaman ef það er ekki smá hiti í hlutunum og líf í fólki. Það er ,,dead boring” að vera alltaf sam­mála öllum og það verður bara flat­neskja,” segir Kristján, sem segist ekki hafa tekið það mikið inn á sig að finna öfund frá Ís­landi í gegnum árin.

,,Það er í raun bara hrós að fá öfund og nei­kvæðni frá á­kveðnum hópi fólks og maður verður að læra að horfa á það þannig. Sveita­mennska og bak­tal verður alltaf til staðar og maður getur ekki breytt því. En allir sem láta eitt­hvað til sín taka eru á milli tannanna á fólki og það er bara ó­hjá­kvæmi­legur hluti af þessu öllu saman.”

Fólk er fífl

Það gustaði gríðar­lega um Kristján árið 2004, þegar öll þjóðin hafði skoðun á honum í kringum um­fjöllun fjöl­miðla um styrktar­tón­leika fyrir lan­veik börn. Kristján fer í þættinum yfir málið allt.

,,Þetta var ó­tru­leg at­burðar­rás og það var allt tekið úr sam­hengi og í raun bara bein­línis logið upp á mig í fjöl­miðlum. Ég hef alla tíð verið mjög ötull í að láta gott af mér leiða, ekki síst eftir að ég missti þá­verandi konuna mína úr krabba­meini fyrir þrí­tugt.

Þess vegna var þetta sér­stak­lega sárt. Það var mikill fjöldi fólks á sviðinu á þessum tón­leikum og það fengu allir borgað fyrir vinnuna sína. Og sumir hafa lík­lega aldrei verið á hærri launum en þarna. Ljósa­menn, hljóð­færa­leikarar, hljóð­menn, söngvarar, allir voru á launum. Kaup­þing Banki styrkti tón­leikana og keypti af­raksturinn og setti á plötu.

Launin mín komu þess vegna frá Kaup­þingi og höfðu ekkert með inn­komu tón­leikanna að gera. Bankinn keypti tón­leikana og borgaði því vinnu allra. En þetta var sett upp eins og að ég hafi einn fengið borgað og tekið launin mín beint frá mál­efninu sjálfu. DV byrjaði málið og svo tók RÚV það upp og birti sömu lygina og hafði verið í DV. En það spurði mig aldrei neinn út í þetta áður en þetta var birt,” segir Kristján og heldur svo á­fram:

,,Ég fékk meira að segja borgað í evrum frá bankanum, þannig að það að halda því fram að þetta kæmi af á­góða tón­leikanna var al­gjör­lega galið. Svo var ég plataður í Kast­ljósið. Ég mætti þangað til að kynna plötu og vissi ekki að ég væri að fara að tala um þetta mál.

En á sama tíma og ég er að undir­búa mig undir að fara í Kast­ljósið er verið að lesa fréttina um mig hinum megin í húsinu á RÚV. Ég var með plötu í hendinni og hélt að ég væri að fara að tala um tón­listina mína í Kast­ljósinu. Svo var bara komið í bakið á mér með alls konar spurningar í beinni út­sendingu án þess að ég hefði hug­mynd um að það væri í vændum. En ég náði nú að hrista þetta frekar fljótt af mér. Shakespeare sagði ein­hvern tíma: ,,Fólk er fífl” og ég hafði það í huga í gegnum þetta ferli.

En það er ekkert sem þú getur gert þegar fjöl­miðlarnir fara af stað með þessum hætti og hring­ekjan fer af stað. Þetta var í raun og veru bara eins og árás og það er erfitt að skilja hvernig argasta bull getur náð svona miklu flugi. Það er ekki fyrr en löngu síðar þegar rykið er sest sem hægt er að tala um þetta af ein­hverju viti.”