„Við erum það leikhús sem sýnir flestar leiksýningar af öllum á landinu,“ segir Sara Martí Guðmundsdóttir, nýr leikhússtjóri Tjarnarbíós, en hún tók við starfinu í apríl á þessu ári. „Það eru 28 leikhópar að fara að sýna hjá okkur á árinu og þá er ég ekki að telja með allar þær hátíðir sem eru með sýningar hérna en þá væru þetta í kringum 40 leikhópar,“ segir Sara, sem segir ekkert leikhús sýna verk eftir svo marga mismunandi hópa.

Tjarnarbíó hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem sá staður þar sem frumsamið og framsækið efni birtist íslenskum leikhúsgestum hvað oftast og spilar því leikhúsið lykilhlutverk í grasrót leikhúsmenningar Reykjavíkur.

„En það er varla hægt að kalla okkur grasrót lengur þar sem við erum vinsælasti uppistandsstaðurinn á landinu núna. Það gengur rosalega vel og ég vil ekki koma fram eins og ég sé að kvarta. Það gengur svo frábærlega fyrir utan það eitt að við verðum stöðugt að vísa fólki frá af því það bara er ekki pláss,“ en leikhúsið fær meðal annars nær daglega fyrirspurnir frá erlendum leikhópum sem leitast við að setja upp efni sitt á íslenskum vettvangi. „Þannig erum við að sinna svo ótrúlega miklum fjölda og mikilli breidd af sviðslistinni. Við erum búin að búa til mjög fallega nýja heimasíðu og það er búið að taka allt húsið í gegn hérna í anddyrinu. Þegar fólk kemur hérna inn núna þá tekur það oft andköf,“ segir Sara Martí og hlær.

Sýningar í fullum gangi

Af þeim sýningum sem nú eru í gangi segir Sara af mörgu að taka.

„Jésú er til, hann spilar á banjó, er sýning sem nú er að klárast. Hákon Örn úr uppistandshópnum VHS semur og leikur sjálfan sig í leit að hinum fullkomna manni sem er banjóspilari í Vesturbæjarlaug. Hljómsveitin Inspector Spacetime semur og flytur músík á sviðinu,“ segir Sara Martí. „Svo er kveðjusýning Karls Ágústs, Fíflið, á fullu róli og selst upp nánast hvert kvöld.“

„Leikhópurinn Lotta er að sýna hjá okkur „Pínulitlu Mjallhvíti“ og eftir áramót verður Lalli töframaður með töfrasýningu fyrir öll börn óháð tungumáli, því hún verður án orða,“ segir Sara Martí, en leikhúsið sýnir einnig uppistandssýningar samhliða hefðbundnari leiksýningum.

„Ari Eldjárn og Jono Duffy voru hjá okkur í september. Bergur Ebbi rokselur allar sýningar sínar núna fyrir áramót og heldur áfram eftir áramót. Madam Tourette, í flutningi Elvu Daggar, verður svo frumsýnd í lok október,“ segir Sara Martí.

Ekki af verri endanum

Eftir áramót taka svo nýjar sýningar við hjá leikhúsinu og segir Sara Martí þær ekki síðri en þær sem nú eru í gangi. Úrval sýninga á árinu er meira en hægt er að nefna í þessari umfjöllun, en Sara Martí segir að hægt sé að kynna sér allar sýningar, komandi og þær sem nú eru í boði, á glænýrri heimasíðu leikhússins tjarnarbio.is.

Meðal þeirra sýninga sem verða eftir áramót er Ég lifi enn, sönn saga, sem er verk eftir Rebekku A. Ingimundar og Þóreyju Sigþórs.

„Í verkinu fá þær til sín þekkta eldri leikara til að vera í öldunga­ráði og eins hafa þær fengið til liðs við sig yngri listamenn til að vera í ungráðinu. Saman hafa þessi ráð áhrif og gagnrýna framvindu þess atburðar sem gerist á sviðinu,“ segir Sara Martí og telur upp meira úrval.

„Venus in Furs, hið þekkta bókmenntaverk, verður frumsýnt í janúar og er í leikstjórn Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur og svo verðum við með verkið Samdrætti, eftir breska leikskáldið Mike Bartlett, sem verður frumsýnt í febrúar og er í leikstjórn Þóru Karítasar. Með aðalhlutverk fara Þórunn Lárusdóttir og Íris Tanja Flygenring,“ segir Sara Martí.

Gamanleikritið Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar verður svo frumsýnt í byrjun mars. „Þar kynnumst við fjórum karlkyns vinum, þar á meðal tónlistarmanninum Valdimar. Þeir hittast við og við og horfa á fótbolta saman. Við kynnumst svo hverjum þeirra þegar við færumst í tíma og lærum að skilja karlamenninguna, klefastemninguna og auðvitað ást þeirra á fótbolta,“ segir Sara Martí.

„Djöfulsins snillingur eftir Reykjavík Ensemble er svo sálfræði­tryllir með íslenskum/alþjóðlegum sviðslistahóp og verður frumsýnt í lok mars,“ segir hún og bætir við: „Hvað ef sósan klikkar? er svo nýtt íslenskt verk eftir Gunnellu Hólmarsdóttur en hér býður hún áhorfendum í sjónvarpsstúdíó til að verða vitni að matreiðsluþætti. Hún skoðar svo áföll kvenna í bland við matreiðslubækur og þætti síðustu aldar og úr verður drepfyndin taugatrekkjandi upplifun,“ segir hún.

Sterkt eftir erfiða tíma

Sara Martí tók við af Friðriki Friðrikssyni sem sinnti starfinu í fimm ár. Hún segir leikhúsið standa í mikilli þakkarskuld við Friðrik, sem hafi haldið því gangandi í gegnum faraldurinn. „Hann hélt þessu bara á lífi í gegnum Covid,“ segir Sara Martí.

„Ég myndi segja að það sé svolítið honum að þakka að starfsemin sé enn í gangi. En hann varð að segja öllum upp á þeim tíma. Það er eiginlega bara kraftaverk að hann hafi ekki skilið leikhúsið eftir í einhverri skuldasúpu,“ segir Sara Martí, sem segir þó leikhúsið standa styrkum fótum enda hafi Tjarnarbíó aldrei verið sótt eins vel og nú.