Sagnfræðingurinn Anna Dröfn Ágústsdóttir og arkitektinn Guðni Valberg munu leiða áhugasama um Laugaveginn á sögugöngu fimmtudagskvöldið 11. ágúst klukkan 20.00. Farið verður yfir byggingar- og skipulagssögu svæðisins með áherslu á það sem er, var og aldrei varð á þessari sögufrægustu götu borgarinnar.

Laugavegurinn er ein fjölbreyttasta og fjölfarnasta verslunargata landsins. En hún hefur ekki einungis upp á búðarglugga og veitingastaði að bjóða heldur geymir hún einnig gríðarmikinn sögulegan arf.

Þetta hafa Anna Dröfn Ágústsdóttir sagnfræðingur og Guðni Valberg arkitekt gert að umfjöllunarefni sínu í bókinni Laugavegur sem kom út fyrir síðustu jól á vegum Angústúru. Þar eru tekin fyrir 120 húsnúmer við Bankastræti og Laugaveg og saga þeirra rakin í máli og myndum.

Í samstarfi við Borgarsögusafn Reykjavíkur bjóða hjónin nú upp á sögugöngu um Laugaveginn fimmtudagskvöldið 11. ágúst klukkan 20, en farið verður frá Stjórnarráðinu og að Klapparstíg. Fjallað verður um byggingarsögu valinna húsa í samhengi við þróun verslunar og skipulag aðalgötu borgarinnar og verða mörg af þeim húsum sem birtast í bókinni tekin fyrir.

Hans Petersen-húsið í Bankastrætin er eitt þeirra húsa sem fjallað verður um í göngu Önnu og Guðna.

Mjög sérstök gata

Anna Dröfn segir Lauga­veginn hafa vakið áhuga þeirra vegna sérstöðu sinnar.

„Gatan er mjög sérstök að mörgu leyti og þetta er einnig merkilega löng gata,“ segir Anna en bókin telur Bankastrætið einnig með í yfirferð sinni. „Þetta er yfir kílómetri frá Lækjartorgi að Hlemmi en það er svæðið sem fjallað er um í bókinni.“

Annað sem Anna nefnir er að gatan hafi byggst upp á mjög löngum tíma.

„Þannig eru ótrúlega margir þættir sem hafa áhrif á myndina í dag. Það er að segja skipulagssaga, breytingar á borginni, menning, byggingarefni, þekking á byggingarefnum og svo er bíllinn líka stór áhrifaþáttur í því hvernig hún hefur breyst. En þetta er í upphafi gata sem er byggð sem íbúðargata þegar það er farið um á hestum og fótgangandi.“

Laugavegur fylgir eftir fyrri bók hjónanna frá 2014 sem kallast Reykjavík sem ekki varð, en þar fjölluðu þau um sögufrægar byggingar í Reykjavík sem upphaflega átti að reisa á öðrum stöðum eða í annarri mynd. Anna segir að slíkar hugmyndir um byggingar sem aldrei urðu muni einnig verða partur af göngunni.

„Þannig erum við líka með þessa draumsýn. En hún loðir alltaf við þar sem þetta eru alltaf svona draugar og draumar,“ segir Anna sem tekur þó fram að gangan muni fjalla um byggingarnar í sinni núverandi mynd. „Það eru oft vísbendingar um bæði það sem var og hefði getað orðið í húsunum sem standa við götuna í þeirri mynd sem þau eru í í dag,“ segir hún.

Bókin Laugavegur kom út á síðasta ári.

Ýmis hús tekin fyrir

Sem dæmi um hús sem tekin verða fyrir í göngunni nefnir Anna Hans Petersen-húsið sem stendur við Bankastræti.

„Það var til dæmis bara byggð ein hæð en uppi voru hugmyndir um fleiri hæðir. Svo er líka mjög gaman að skoða hornið þar sem Ingólfsstræti sker Bankastrætið en þar eru alls konar vísbendingar um hvernig húsin hefðu getað verið öðruvísi.“

Gangan er partur af viðburðaröð sem Borgarsögusafn, Borgarbókasafn, Listasafn Reykjavíkur og Bókmenntaborgin standa fyrir. Upplýsingar um allar göngurnar er að finna á vef Borgarbókasafnsins og á Facebook-síðunni Kvöldgöngur. n