Segir Elínborg Harpa Önundardóttir aktívisti sem lýsir reynslu sinni af því að liðsinna hælisleitendum og vinnubrögðum lögreglu. Olivia Bockob er fædd í Kamerún og fékk vernd á Íslandi eftir nærri tveggja ára baráttu og lýsir erfiðri reynslu sinni.

Prests­dóttir frá Breiða­ból­stað

Hún er fædd og upp­alin á prests­setrinu á Breiða­ból­stað í Fljóts­hlíð, for­eldrar hennar eru séra Önundur Björns­son og Harpa Viðars­dóttir lyfja­fræðingur. „Þetta er svo fal­legur staður, ég þarf að nýta tímann og fara oftar í heim­sókn til pabba því hann verður bráðum sjö­tugur og þarf að yfir­gefa prests­setrið. Það er ofsa­lega skrýtið að þurfa að kveðja æsku­heimilið en svona gengur þetta bara fyrir sig. Ég fer heim þegar ég þarf smá næði og kjarna mig,“ segir Elín­borg.

„Ég flutti hingað í bæinn þegar ég var fimm­tán ára gömul til þess að fara í Verslunar­skólann. Ég lærði þar í tvö ár og fór svo í skipti­nám til Frakk­lands, bjó í litlum smá­bæ þar sem aðal­at­vinna fólks var vín­rækt. Flestir voru vín­ekru­bændur, þarna eignaðist ég mikið af góðum vinum og mína fyrstu kærustu,“ segir Elín­borg. Hún flutti heim eftir stúdents­prófið og fór svo aftur til Frakk­lands að því loknu og bjó þar um tíma með kærustunni sinni.

„Við hættum saman og ég flutti heim og hóf nám í heim­speki við Há­skóla Ís­lands. Ég fór út í skipti­nám til Frei­burg og náði ein­hvern veginn að klára námið með herkjum, úti í Þýska­landi var kennt á þýsku og ég kunni varla stakt orð í málinu þegar ég fór út,“ segir hún og brosir.

Ekki aftur snúið

Hún segir það marg­slungið hvernig það kom til að hún varð aktív­isti. „Ég hef alltaf viljað láta til mín taka en hafði ekki fundið því far­veg. Ég prófaði að taka þátt í stúdenta­pólitíkinni en það hentaði mér ekki. Mér fannst það skrýtið hvernig stúdenta­pólitíkin var eins og lítið af­sprengi af Al­þingi. Haldnir form­legir fundir og tvær fylkingar að berjast um at­kvæði.

Í heim­spekinni var ég svo­lítið af­tengd og á kafi í ab­strakt hlutum, ég gerði hlað­varps­þætti með Snorra Rafni og Tómasi Ævari vinum mínum, sem kölluðust Heim­speki­verk­smiðjan. Í einum þættinum fjölluðum við um frelsi og þá ræddi ég við tvo ein­stak­linga sem stóðu að fé­lags­rýminu And­rými. Þá var opið eitt kvöld í viku og eldaður kvöld­matur með flótta­fólki,“ segir Elín­borg sem segist hafa á­kveðið að fara á skipu­lags­fund í rýminu

„Eftir það varð ekki aftur snúið. Ég kynntist fólki sem skipu­lagði fundi þarna og kynntist líka hug­mynda­fræði anark­isma og varð hrifin af henni.
Bróðir minn að­hylltist einu sinni anark­isma og þá var ég svo­lítið að lesa honum pistilinn. Viltu virki­lega búa í sam­fé­lagi án lög­reglu? spurði ég hann og sagði honum að það væri ó­trú­lega vit­laust. Í dag sé ég eftir því að hafa ekki stutt hann betur í þessu.

Á jafningja­grund­velli

Ég gekk inn í starfið og fór að tala við fólk. Og þegar maður kynnist fólki sem er í að­stæðum sem eru al­ger­lega ó­boð­legar og ó­manneskju­legar þá vill maður ein­fald­lega gera eitt­hvað,“ út­skýrir hún.

„En ég er ekkert í vinnu við að að­stoða fólk eða hjálpa, þarna hittist fólk á jafningja­grund­velli, við kynnumst og liðsinni mitt er oft bara hluti af vin­áttu,“ segir hún.

„Kannski er ég að ein­hverju leyti að reyna að gangast við for­réttindum mínum. Allt mitt frelsi hvílir á þeirra ó­frelsi, það er kannski fyrst og fremst það sem drífur mig á­fram. Ég ber á­byrgð á minni til­vist og ég vil ekki taka þátt í sam­fé­lagi sem byggir á ó­frelsi og kúgun annarra,“ segir Elín­borg og segir kúgunina ekki að­eins eiga við um landa­mæri heimsins. „Kúgunin felst líka í kapítalísku efna­hags­kerfi, á vinnu­markaði og víðar þar sem lúxus fárra þrífst á harki annarra. Það ríkir mikill að­skilnaður í okkar sam­fé­lagi á svo mörgum sviðum.“

Lýsir út­lendinga­and­úð

Elín­borg hefur farið með vinum sínum í Út­lendinga­stofnun þegar þeir hafa beðið hana um það. Henni hefur hins vegar oft verið meinaður að­gangur. Á dögunum fékk hún form­legt svar hvers vegna henni væri meinaður að­gangur og var henni sagt að starfs­stöð Út­lendinga­stofnunar og lög­reglu að Bæjar­hrauni væri einungis opin fyrir um­sækj­endur um al­þjóð­lega vernd og þá sem eiga þangað form­leg erindi vegna um­sókna svo sem tals­menn á vegum RKÍ, lög­menn og túlka. Hún efast um lög­mæti þess að loka opin­berri stofnun með þessum hætti.

„Út­lendinga­stofnun á sér rætur í mjög hægri­sinnaðri hug­mynda­fræði sem byggir á út­lendinga­and­úð. En fáir vilja tala um það eða horfast í augu við það. Fólk stekkur í því­líka vörn þegar út­lendinga­and­úðin er nefnd, allir séu bara að vinna vinnuna sína. En við­horfið sem ég hef mætt hjá kerfinu þegar ég er að reyna að standa með vinum mínum sem standa rosa­lega höllum fæti lýsir and­úð.

Fólk þarf að hugsa þetta til enda, því það er ekki nóg með að Út­lendinga­stofnun taki af­drifa­ríkar á­kvarðanir um líf flótta­fólks og hælis­leit­enda, heldur þarf þetta fólk að sækja alla þjónustu þangað. Varðandi hús­næði, læknis- og sál­fræði­þjónustu. Stofnunin getur svipt fólk vasa­peningum ef það fær gest í ó­leyfi í hús­næði sem það býr í á vegum Út­lendinga­stofnunar og margir upp­lifa sig í gíslingu. Auð­vitað er sér­stak­lega erfitt fyrir þetta fólk að standa í lappirnar og krefjast úr­bóta og auð­vitað vill það taka með sér vin sér til halds og trausts, eða jafn­vel vitni. Þau taka svo mikla á­hættu þegar þau krefjast réttinda eða láta rödd sína heyrast.“

„Ó­þægindin“

Elín­borg segir að stjórn­mála- og em­bættis­mönnum finnist bar­átta No Bor­ders ó­þægi­leg. „Dóms­mála­ráð­herra, Þór­dís Kol­brún, hefur ekki séð á­stæðu til að hitta flótta­fólk og ræða bar­áttu­mál þess,“ segir hún og sagði upp­á­komu á dögunum þegar flótta­maður tók til máls á opnum fundi með Sjálf­stæðis­mönnum ekki hafa komið henni á ó­vart.

„Þó að hryðju­verka­á­sökunin, plat­lög­reglan og að svipta flótta­menn sjálf­stæðum vilja hafi verið að­eins meira en búist var við. Þór­dís Kol­brún sagði svo í sjón­varps­við­tali að þetta hefði verið mjög ó­þægi­leg upp­lifun og ó­heppi­legt, það fannst mér at­hyglis­vert. Ó­þægindi virðast ein­kenna flótta­fólk sem lætur á sér bera og fólk sem vekur at­hygli á stöðu þess. Til að mynda voru tveir að­gerða­sinnar dæmdir á skil­orð í tvö ár fyrir að hafa valdið „veru­legum ó­þægindum“. Gífur­leg ó­þægindi sem sýni­leg til­vist kúgaðra veldur þeim sem kúga og þá er ekkert annað í stöðunni en að aga: nota pipar­úða, hóta, hand­taka, hundsa þau. Það var líka mjög af­hjúp­andi að þykju­stu­lög­reglu­maðurinn sagðist ekki myndu hafa talað eins við Ís­lending.“

Ég skal vera skríll

Hvernig við­horfi mætið þið?

„Sumir eru mjög já­kvæðir og styðja bar­áttuna á ýmsa vegu. Aðrir hafa skrýtna mynd af okkur, þeim finnst við vera skríll. Slæpingjar sem lifa af kerfinu, en vita ekkert hvort við séum í vinnu, skóla eða hvað. Og ef ein­hver þyrfti að „lifa af kerfinu“, er ein­hver skömm í því? Er það ekki það sem þing­menn gera? Alla­vega, flest sem er sagt um No Bor­ders er á mjög nei­kvæðum nótum en það verður bara að hafa það. Ég skal vera skríll ef þetta er skil­greiningin.“

Elín­borg hefur ekki góða reynslu af af­skiptum lög­reglu af mót­mælum, yfir­heyrslum og hand­tökum.

„Ég hef verið hand­tekin, lög­reglan hefur gengið mjög hart fram í hand­tökum sínum og hefur mjög litla þolin­mæði fyrir flótta­fólki og okkur í No Bor­ders,“ segir Elín­borg og gefur nokkur dæmi um fram­komu lög­reglu.

„Við vorum í mjög frið­sömum mót­mælum fyrir framan Al­þingi og lög­reglan vildi okkur burt. Ég sagði: Það er tjáningar­frelsi í þessu landi, og lög­reglu­maður svaraði: Þið getið farið og nýtt það annars staðar. Fyndinn.

Einu sinni keyrðu þeir stóran bíl inn í mið mót­mæli, höfðu kveikt á bílnum og sneru púst­rörinu að okkur. Við heyrðum ekki í ræðu­fólki og stóðum þarna í mekki úr púst­rörinu. Ég bað um að það yrði slökkt á bílnum, þetta væri bæði hljóð­mengun og ó­hollt fyrir bæði þá og aðra sem þarna stóðu. Þá svöruðu þeir: Þessi mót­mæli eru hljóð­mengun.

Skipanir lög­reglu ó­rétt­mætar

Lögin sem við höfum oft verið sökuð um að brjóta eru að hlýða ekki skipunum lög­reglu. Yfir­leitt heyri ég ekki hvað lög­reglan er að segja en í mínum huga eru skipanir lög­reglu al­ger­lega ó­rétt­mætar hvort sem er. Form af vald­beitingu sem ég sam­þykki ekki, oftast eru þetta ein­hverjir ó­kunnugir karlar að segja mér að ég megi ekki standa þarna, sitja hérna og svo fram­vegis. Al­gjör fá­rán­leiki.

Einu sinni stóðum ég og vinir mínir fyrir framan rúss­neska sendi­ráðið í rað­mót­mælum á vegum S78. Stóðum tvö saman, af­skap­lega ró­leg á gang­stéttinni fyrir framan sendi­ráðið, þetta var út af pyntinga­búðum sam­kyn­hneigðra í Téténíu. Þetta var bara á gang­stétt fyrir al­menna veg­far­endur. Rúss­neskum em­bættis­mönnum þótti þetta ó­þægi­legt og kölluðu lög­reglu til. Lög­reglan kom og sagði okkur að færa okkur yfir götuna, fjær sendi­ráðinu. Við sögðum nei og bentum rétti­lega á það að þarna mætti fólk labba og standa eins og því sýndist. Eftir að hafa reynt að ýta okkur yfir sagði lög­reglan: Ef þið færið ykkur ekki, þá hand­tek ég ykkur.

Það var engin rétt­mæt á­stæða. En þetta er lýsandi fyrir það við­mót sem við mætum og skilnings­leysi á réttindum borgara til að mót­mæla. Mér finnst þetta ekki eðli­leg mann­sæmandi hegðun en ég geri bara ráð fyrir því að ég geti ekki treyst lög­reglunni.“

Beðin um að fara úr buxunum

Hún segir það af og frá að fólk eins og hún sækist eftir því að valda svo mikilli mót­spyrnu að það þurfi að hand­taka það. „Það er ekkert sport að láta hand­taka sig. Það er ömur­legt. Þú ert yfir­heyrð, það er leitað á þér, þú ert sett í hand­járn og í ein­angrun. Mér hefur verið neitað um að hringja í ást­vini og lög­mann, án skýringa. Þetta er svo mikil vald­beiting. Ég var beðin um að fara úr buxunum. Annarri úr hópnum var sagt að það þyrfti að skoða inn í nær­buxurnar hennar.

Sem betur fer þekkjum við réttindi okkar og segjum bara nei. Þá er okkur svarað: Ætlar þú ekki að gera eins og ég segi? Og við neitum. Þá bakka þau. Þessi hegðun er svona gagn­vart okkur, en hvernig er hún gagn­vart þeim sem eru í veikari stöðu en við? Hvernig tekst þeim að mæta þessum að­ferðum lög­reglu? Ég velti því stundum fyrir mér.“

Fréttablaðið

Send til Frakk­lands tólf ára

Olivia Edwi­ge M. Bockob er 35 ára og fædd í Kamerún. Hún er ný­komin með ís­lenska kenni­tölu og er því ekki byrjuð að vinna. En hún sinnir sjálf­boða­störfum hjá Rauða krossinum tvisvar í viku fyrir opið hús fyrir konur og fyrir Rauða­kross­búðina. Aðra tvo daga vikunnar sinnir hún sjálf­boða­störfum fyrir Manitaa, sem eru kamerún­sk góð­gerðar­sam­tök. Sam­tökin selja hand­gerða afríska muni til styrktar starf­seminni. Hún tekur einnig þátt í fé­lags­starfi á vegum And­rýmis.

„Á meðan ég var í hælis­leit­enda­kerfinu fékk ég tæki­færi til að læra ís­lensku hjá Mími og Tin­Can­Factory á síðasta ári, ég ætla að halda því á­fram og í næstu viku hef ég nám í ís­lensku aftur hjá Mími,“ segir hún.

Olivia bjó í Kamerún þangað til hún var tólf ára. Þá var hún send til Frakk­lands af föður sínum til ættingja sem bjuggu þar og gekk í heima­vistar­skóla.

„Faðir minn sendi mig til Frakk­lands vegna þess að ég fæddist með sjald­gæfa tegund blóð­krabba­meins. Á þessum tíma var heil­brigðis­kerfið í Kamerún ekki nógu gott, kostnaðurinn gríðar­lega hár og flest börn með þennan sjúk­dóm dóu áður en þau náðu fimm ára aldri. For­eldrum mínum tókst hins vegar að halda mér á lífi þangað til ég varð tólf ára. Í Frakk­landi fékk ég svo góðan að­gang að heil­brigðis­kerfinu, nokkuð sem ég verð ævin­lega þakk­lát fyrir. Ég naut mjög góðrar heil­brigðis­þjónustu þar frá 12 ára aldri þangað til ég þurfti að fara þaðan 32 ára gömul.“

Menntaði sig þrátt fyrir veikindi

Þrátt fyrir veikindin var Olivia stað­ráðin í að mennta sig. Hún út­skrifaðist með B.Sc.-gráðu í stjórnun frá Pant­heon Sorbonne í París. Hún talar reip­rennandi frönsku svo hún gat tekið virkan þátt á frönskum vinnu­markaði. Í fyrstu gætti hún barna, þá vann hún í mót­töku fyrir­tækja, hún vann í banka í þrjú ár. Um tví­tugt var hún einnig farin að taka þátt í ýmsu menningar­starfi og bar­áttu fyrir mann­réttindum og betri lífs­gæðum fyrir aðra inn­flytj­endur sem höfðu ekki notið sömu vel­gengni og hún.

Hún eignaðist dóttur árið 2011. „Allir kalla hana Míló. Hún er átta ára, ég var gift föður hennar sem er líka frá Kamerún en við skildum.

Gullna tæki­færið reyndist gildra

Tengt aktív­isma mínum fór ég að vinna fyrir ráð­gjafa sem starfaði við neðri deild franska þingsins. Í fyrstu var það sjálf­boða­vinna án samnings. Hann sagði að ef ég væri nógu góð myndi ég fá samning sem gagna­sér­fræðingur fyrir þingið. Fyrstu tvö árin gekk vel og vinnu­fyrir­komu­lagið var ó­form­legt. Seinna sagði hann að ég þyrfti að gera meira og ég fór að vinna fyrir hann í fullu starfi,“ segir Olivia sem segist meðal annars hafa unnið að verk­efnum tengdum heims­mark­miðum Sam­einuðu þjóðanna, streymi sýr­lenskra flótta­manna og for­seta­kosningum í Frakk­landi. En á sama tíma hafi ráð­gjafinn kynnt hana fyrir allt öðrum heimi og þetta frá­bæra tæki­færi sem henni bauðst reyndist gildra.

„Á meðan kynnti hann mig hægt og ró­lega fyrir allt öðrum heimi þar sem ég þurfti að þola man­sal. Hann sagði að þetta væri hluti starfsins. Mér fannst þetta ó­þægi­legt en ég gerði samt flest sem hann og vinir hans báðu mig um. Eftir marga mánuði af þjáningu og skömm á­kvað ég að hætta. Hann sagði: Enginn yfir­gefur mig. Þú vinnur fyrir mig eða deyrð. Ég hélt að þetta væri bara ömur­legur brandari. Hann sagði mér að vinum sínum líkaði vel við mig, ég sagði að mér væri alveg sama, ég vildi hætta.

Hótanir, ótti og flótti

Hann varð ofsa­fenginn og of­beldis­fullur og gerði líf mitt ó­bæri­legt í Frakk­landi. Hann sagði mér að ég væri ekkert og hann myndi eyði­leggja mig. Öllum væri sama um það hvað yrði um mig og dóttur mína.“

Olivia fór frá Frakk­landi og til Kamerún og vildi stuðning fjöl­skyldu sinnar sem sagðist ekki treysta sér í það verk­efni. Henni væri ekki ó­hætt í Kamerún vegna tengsla við Frakk­land.

„Svo að ég varð að finna lausnina sjálf. Ég reyndi að fara til Kanada, það gekk ekki upp. Við Míló eyddum ári í að fara á milli landa til að reyna að finna öruggan stað. Ég upp­lifði ekki öryggi í neinu þeirra og var hrædd við vini og við­skipta­vini ráð­gjafans. Ég hafði fengið að sjá lista af fólki sem ég átti að vinna fyrir, þar voru í­þrótta­menn, leikarar og söngvarar, stjórn­mála­menn og með­limir evrópskra konungs­fjöl­skyldna.“

Eftir flakk um Evrópu var Olivia buguð og í neyð reyndi hún meira að segja að biðla til ráð­gjafans um að fá að koma aftur til Frakk­lands til að starfa fyrir hann ef hann gæti tryggt öryggi hennar og dóttur hennar. Það gerði hún hins vegar ekki og keypti flug­miða til Ís­lands þar sem hún sótti um hæli.

„Ég hafði lesið að það væri land mann­réttinda sem virti réttindi bæði kvenna og barna. Fyrir mér var þessi eyja í miðju hafinu öruggasti staður í Evrópu.“

Ekki trúað

Reynsla mín af Út­lendinga­stofnun var mjög vond. Þau trúðu mér ekki og sendu mig til að ræða við starfs­fólk geð­sviðs Land­spítala. Þeir sögðu mér að ég hefði skáldað þessa sögu í höfðinu á mér. Enginn vildi drepa mig, ég væri bara farin á taugum. Þeir ætluðu sér að senda mig til Frakk­lands án þess að taka mál mitt til nokkurrar efnis­með­ferðar og bentu á að ég væri með frönsk skil­ríki og ég hefði aldrei beðið um hæli áður í Evrópu. Eftir ní­tján mánuði fengum við Míló loks vernd á Ís­landi.

Hún bjó hjá fóstur­fjöl­skyldu í Hafnar­firði og gekk í skóla. En á öðru ári mat geð­læknirinn líðan mína þannig að Míló mætti koma aftur til mín og við fluttum í hælis­leit­enda­búðirnar á Norður­hellu í Hafnar­firði. Á meðan ég bjó þar reyndi ég að vera eins virk ég gat og sinnti því sjálf­boða­störfum af krafti. Það hefur hjálpað mér og forðað mér frá þung­lyndi.“

Olivia fékk nýja kenni­tölu og tókst að finna sér íbúð. Hún segir það hafa verið afar erfitt og valdið sér gríðar­legri streitu. „En nú veit ég hvernig lífið virkar á Ís­landi þegar þú ert með kenni­tölu, það er nýtt og mjög spennandi fyrir okkur,“ segir hún.

Olivia kynntist Elín­borgu og fannst auð­velt að tala við hana. „Hún talar frönsku svo hennar hjálp og Hildar [Harðar­dóttur] hefur reynst mér ó­metan­leg og nauð­syn­leg. Þær hafa báðar verið til staðar fyrir mig og dóttur mína og reynt að láta okkur líða vel í hlut­skipti okkar. Þær hafa sýnt okkur hvað Ís­lendingar eru hlýir og góð­hjartaðir, allt önnur hlið en við kynntumst frá Út­lendinga­stofnun sem er köld og stíf stofnun.

Í And­rými hittist fólk frá öllum heims­hornum og borðar saman. Þar skiptir upp­runi, kyn­þáttur, trú eða bak­grunnur engu máli. Þetta er einn öruggasti og kær­leiks­ríkasti staður í Reykja­vík á­samt Rauða krossinum og gerir líf hælis­leit­enda einnig eins bæri­legt og mögu­legt er. Þar er okkur hjálpað við að reyna að gleyma of­beldinu sem við höfum orðið fyrir og með­ferð Út­lendinga­stofnunar á okkur.

Ég vona að lífið hér á Ís­landi færi okkur frið. Við erum öruggar hér og mig langar í frekara nám og að láta gott af mér leiða til bar­áttu fyrir mann­réttindum og betra lífi flótta­fólks.“