Hljóðbrot af ummælum áhrifavaldsins Þórunnar Ívarsdóttur við Alexsöndru Bernharð, meðstjórnanda hennar og vinkonu í hlaðvarpinu, Þokan, hefur farið manna á milli á samfélagsmiðlum síðastliðinn sólarhring.

Áhrifavaldurinn og ljósmyndarinn Helgi Ómarsson vakti athygli á þessu á Instagram í gær og sagði að um andlegt ofbeldi i vinkonusambandi væri að ræða, og þetta væri því miður ekki einsdæmi.

„Þú ert ekki í formi“

Í hljóðbrotunum má heyra Þórunni meðal annars segja við Alexöndru að, hún sé síðasta manneskjan sem hún myndi segja að væri í formi, „Þú ert ekki í formi, það er engin mótun þarna ,“ „Ég á enga vinkonu sem er verr gift en þú“ og „for real hún á enga peninga,“ segir Þórunn um Alexöndru og hlær.

Er enn að meðtaka hlutina

„Ég er í raun og veru í svolitlu áfalli eftir allt saman, af því að ég áttaði mig ekki á þessu, segir Alexsandra í samtali við Fréttablaðið þegar hún spurð út í samtöl þeirra í fyrrnefndu hlaðvarpi.

Alexsandra segist hafa fengið skilaboð frá fólki og vinkonum í gegnum tíðina um að fólk væri hætt að hlusta á þættina vegna þess hvernig Þórunn talar við hana.

„Ég er ótrúlega leið fyrir hlustendur okkar þar sem þetta er ekki upplifunin sem ég vil að hlustendur fái og finnst að boðskapurinn hafi týnst með þessu hlaðvarpi. Mér finnst eins ég hafa brugðist þeim að hafa ekki spottað þetta.“

Aðspurð segist Alexsandra ekki hafa talað við Þórunni eftir að Helgi setti þetta fram.

„Ég er ekki búin tala við hana núna og þarf að taka minn tíma til að meðtaka þetta og ná utan um allt. Ég er að vinna í því og fæ að tjá mig síðar,“ segir Alexsandra.

Eyddi afsökunarbeiðnunum

Þórunn Ívarsdóttir birti yfirlýsingu á Instagram reikningi sínum í gær þar sem hún baðst afsökunar og sagðist brotin yfir því hvernig hún hafi leyft sér að koma fram við vinkonu sína, en eyddi færslunum skömmu síðar.

„Ég er brotin yfir því að ég hafi leyft mér að koma svona fram. Það er engin afsökun en það vita allir sem náðu að hlusta á síðasta þátt að það er ekki búið að vera auðvelt að starfa við þetta. Það á enginn að leyfa sér að tala svona þó það sé í góðu gríni. Sambandið okkar er of náið og flókið fyrir alheiminn að fylgjast með.“

„Er að reyna að koma því í orð hvað skal segja. Kannski er ekkert hægt að segja. Frá mínum dýpstu hjartarótum iðrast ég þess að hafa sagt eitthvað við vinkonu mína sem gæti sært hana. Allar þessar klippur eru sagðar í 100 prósent gríni við bestu vinkonu mína og mikið hlegið, sem er síðan tekið úr öllu samhengi og birt.“

Ég hef komist að því eftir að hafa hugsað um þetta stanslaust í sólarhring að dýnamíkin í þessu vinkonu sambandi, sem Þokan er, er kolröng og á ekki að eiga sér stað. Hvergi.“

En eitt vil ég að allir viti að ég er alltaf til staðar fyrir vinkonu mína og stutt í gegnum ansi margt. Það hafa líka verið sagðir hlutir við mig í Þokunni sem eru svipaðir en ekki birtir. Ég þakka fyrir mig Þokan og allar þær yndislegu konur sem ég hef kynnst í þessari vegferð,“ skrifaði Þórunn á Instagram.

Þórunn biðst innilegrar afsökunar á ummælunum í einlægu myndbandi á Instagram sem birtist í morgun.
Instagram/Skjáskot