Emmanuelle, eða Emma eins og hún er oftast kölluð, byrjaði að búa til skartgripi þegar hún bjó í Noregi, og fékk þá hugmynd að búa til litla fuglshöfuðkúpu úr postulíni. „Síðan þegar ég fór aftur til Parísar, þá setti ég mynd af höfuðkúpunni á Facebook, og fullt af fólki fór að spyrja mig hvort ég gæti búið til fleiri og selt því,“ segir hún en þannig hófst ferill Emmu sem skartgripasmiðs.

Fuglinn er táknrænn að mörgu leyti, en fuglshöfuðkúpan minnir á grímur sem læknar báru þegar plágan eða svarti dauði reið yfir Evrópu á 14. öld. Emma var þó ekki með pláguna í huga þegar hún fékk hugmyndina.

Hér hanga eyrnalokkar eftir Emmu. Fuglahöfuðkúpur, mannshöfuðkúpur, tennur og píka.

Fuglshöfuðkúpan er enn vinsælasti gripurinn, bæði sem hálsmen og eyrnalokkar, en Emma segist heillast af öllu „dauðu efni“ sem fyrirfinnst í bæði mannslíkamanum og dýralíkömum. „Þetta er skrýtið viðfangsefni fyrir skartgripi, fyrir mér tengja þeir saman lífið og dauðann. Dauða efnið, bein, tennur, horn á dýrum, neglur og klær, allt sem vex út úr líkamanum og táknar á einhvern hátt dauðann. Það er óhugnanlegt en ég heillast af því.“

Emmanuelle Hiron heillast af efni tengir saman lífið og dauðann.

Skartgripirnir eru í raun eftirlíkingar af stærri höggmyndum sem Emma er stundum með til sýnis í Listastofunni. Emma segir að í dag séu höggmyndirnar ekki til sölu þótt hún hafi í fortíðinni selt til listasafnara. „Ég get ekki selt listaverkin mín lengur, þau eru of persónuleg og tengjast lífi mínu of sterkum böndum. En ég get lifað á listinni með því að selja eftirlíkingar í formi skartgripa. Ég kann vel við þá hugmynd að skartgripirnir fái að njóta sín á líkömum. Þá eru skartgripirnir eins og framhald af líkamanum, og á sama tíma áminning um að líkaminn er lifandi en hann mun einhvern tíma deyja.“

Skartgripir geta líka þjónað þeim tilgangi að endurspegla hvers konar manneskja viðkomandi er sem ber þá, en hún nefnir sem dæmi að í æsku hafi hún alltaf borið kaþólskan kross þar sem hún fékk kaþólskt uppeldi. „Síðasti skartgripurinn sem ég bjó til er píka. Það að vera með píkuhálsmen getur sumum kannski þótt skrýtið, en mér finnst gaman að sýna fólki eitthvað sem það vill ekki sjá. Það er eitthvað ljóðrænt við það.“ Hægt verður að kaupa skartgripina fram til 17. júní næstkomandi, en síðan fer Emma aftur heim til Frakklands.