Þórunn Bára Björnsdóttir sýnir rúmlega tuttugu stór akrýlverk á sýningunni Surtsey – Mávaból í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. „Þetta eru náttúrumyndir. Ég hef áhuga á náttúruskynjun og náttúruvernd og tel að list hafi hlutverki að gegna ásamt vísindum að vekja okkur til umhugsunar um samband okkar við náttúruna og geti verið hvati til góðra verka báðum til gagns. Við tilheyrum náttúrunni og skynjum heiminn með skynfærunum. List er samskiptatæki sem þjálfar skynjun og styður okkur við að fóta okkur í tilverunni, ekki síður en rökhugsun og önnur þekking,“ segir Þórunn.

Fast land undir fótum

Spurð um Surtseyjartitil sýningarinnar segir hún: „Ég hef nýtt mér aðgengileg gögn náttúruvísindamanna um þróun lífs og landnám plantna í Surtsey sem grunn að verkum mínum síðastliðin 15 ár. Ég er ekki beint að skrásetja Surtsey en hef fylgst með því hvað er að gerast þar og hef lesið mér til um hvaða gróðurtegundir eru þar í dag, hverjar hafa horfið og hvað hefur komið í staðinn. Ég styðst við það sem vísindamenn hafa skrifað því ég vil hafa fast land undir fótum. Í myndunum leitast ég við að tengja saman list og vísindi. Ég fylgi þó alltaf fyrst og fremst skynjuninni. Í listinni hef ég lært að fylgja henni.“

Um myndirnar á sýningunni segir hún: „Myndirnar sýna fléttur og mosa. Ég er að lyfta þessu litla og færa það nær okkur. Ég hef mikinn áhuga á náttúruskynjun og náttúruvernd og það endurspeglast mjög greinilega í myndunum. Ég vil vekja fólk til umhugsunar um það hvers konar samband við höfum við náttúruna og þar af leiðandi við okkur sjálf af því við erum hluti af náttúrunni.“

Vinnur af köllun

Hún segir að ákveðin hugmyndafræði liggi að baki stærð myndanna. „Listin þarf að ná til fólksins. Ef mynd er stór kemst fólk ekki hjá því að sjá hana. Ég hef myndirnar litríkar vegna þess að litir og form hafa áhrif á líðan fólks og hugsun. Verkin einkennast af fallegum litum og fegurð.

Þórunn lauk listnámi frá listaháskólanum í Edinborg og Wesleyan háskólanum í Bandaríkjunum og hefur haldið sýningar árlega, ýmist á Íslandi eða erlendis. „Ég hef sýnt víða um land. Fólk er hrifið því það hafa allir ánægju af náttúru og myndirnar endurspegla fegurð. Ég vinn að myndlistinni af köllun og mikilli ánægju.“