Í nýjasta Podcastþætti Sölva Tryggvasonar birtir hann viðtal við Sergio Moreno, sem er ungur maður sem fæddist í versta fátækrahverfinu í Medellin í Kólumbíu. Sölvi tók viðtalið þegar hann var sjálfur á ferðalagi í Suður-Ameríku. Sjálfur á Sergio í dag fallegt líf eftir að hafa verið harðduglegur allt sitt líf, en vinir hans völdu margir aðra leið.
Stanslaust með augu í hnakkanum
„Ég á mikið af vinum sem hafa eignast fullt af peningum, en af því að þeir hafa verið í glæpum og eiturlyfjasölu síðan þeir voru börn geta þeir ekki notið þess. Þeir þurfa stanslaust að vera með augu í hnakkanum og lifa í mjög hættulegu umhverfi. Þeir geta ekki gengið öruggir um göturnar frá degi til dags og hafa auk þess mjög slæma hluti á samviskunni. Margir æskuvinir mínir og kunningjar hafa farið hátt upp í eiturlyfjahringjum Kólumbíu,“ segir Sergio í viðtalinu og heldur áfram:
„Sumir þeirra létu lífið mjög ungir. Þegar þú ert kominn djúpt inn í slæmar glæpaklíkur í Kólumbíu er ekki auðvelt að komast út og það endar nánast alltaf illa. Möguleikarnir á að eignast gott og fallegt líf þegar þú elst upp við aðstæðurnar sem ég ólst upp við eru ekki miklar. En það er allt hægt með réttu hugarfari og ég þakka alla daga fyrir að hafa valið rétta leið og lagt mikið á mig til að forðast að fara leiðina sem því miður allt of margir fara. Markmið mitt í lífinu núna er að hvetja börn og unglinga í Kólumbíu til dáða og sýna þeim að það sé allt hægt með réttu hugarfari. Það er ekki auðvelt, en flest allt gott í lífinu kallar á það að maður sé duglegur.”
Þakkar fyrir líf sitt alla daga
Hann segist þakka fyrir líf sitt alla daga og tekur því ekki sem sjálfsögðum hlut:
„Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að ég myndi eiga lífið sem ég á í dag, þar sem ég rek ferðaþjónustu, á heimili, konu og barn. Ég ólst upp í hverfi þar sem ég sá menn labba um með byssur alla daga og skotárásir voru daglegt brauð. Fólk sem hefur ekki heyrt skotið úr alvöru vélbyssum gerir sér kannski ekki grein fyrir því hve hávaðinn er mikill. Ég man að sem barn var ég oft að spila tölvuleiki eða horfa á sjónvarpið þegar hávaðinn varð mjög mikill og við urðum að stoppa þar til skothríðirnar voru afstaðnar. En ég og vinir mínir vorum orðnir svo vanir því að heyra skotárásir að við kipptum okkur ekkert upp við það lengur. Það dóu margir vinir mínir þegar ég var bara krakki og unglingur og eina leiðin út virtist vera að fara í glæpi og eiturlyf. „Communa 13“ var á tímabili svo slæmt hverfi að lögreglan kom ekki einu sinni inn fyrir hverfismörkin. Hverfið var á tímabili algjörlega á valdi skæruliða og maður þurfti að vera stanslaust á varðbergi. En þegar maður þekkir ekkert annað verður það bara eðlilegur veruleiki hjá manni. En auðvitað sé ég það núna að það var ekkert eðlilegt við aðstæðurnar í hverfinu.”
Fimm ára þegar hann sá fyrst lík
Hverfi 13, eða „Communa 13“ var á tímabili eitt versta hverfi heims þegar kemur að glæpum. Heimili Sergios var í hverfinu miðju og eðlilega sá hann því hluti sem fæstir sjá nokkurn tíma á ævinni:
„Ég var ekki nema 5 ára gamall þegar ég sá í fyrsta skipti lík á götunni. Ég man hvað það var skrýtið. Að sjá líkama liggjandi í götunni og þegar það var ýtt í hann hreyfðist hann ekki. Ég átti eftir að sjá mun fleiri lík á næstu árunum. En þó að hverfið hafi almennt verið slæmt gekk lífið sinn vanagang ég gerði hluti sem flestir guttar gera, eins og að spila fótbolta og leika mér. Eini munurinn var að okkur var sagt að vera inni miklu oftar en ella út af ástandi. Svo man ég vel eftir dögunum þegar herinn gerði fyrst tilraun til að ná hverfinu á sitt vald. Fyrst var ég var spenntur þegar ég sá myndir af hverfinu mínu í sjónvarpinu. Þá voru það loftmyndir af aðgerðum hersins. En svo sagði mamma mín mér frá því sem var að gerast og þá áttaði ég mig á því að það var ekkert jákvætt.”
Aðgerðin sem Sergio talar þarna um átti sér stað vorið 2002, þegar kólumbísiki herinn fór inn í hverfið, en það bar ekki árangur og 9 saklausir borgarar létu lífið, þar af 3 börn. Seinna þetta sama haust fór herinn aftur inn með mun meira afli í „Orion“-aðgerðinni, þar sem skriðdreki, þyrlur og 1500 her-og lögreglumenn fóru inn í hverfið:
„Það voru stanslausir bardagar í 3 sólarhringa, þar sem skothríðir áttu sér stað frá morgni til kvölds. Sem betur fer endaði það með því að þeir af skæruliðunum sem enn voru eftir flúðu. Eftir þetta byrjuðu hlutirnir að þokast í rétta átt, þó að auðvitað hafi tekið mörg ár að koma hlutunum fyrir alvöru í rétta átt,” segir Sergio meðal annars.
Allir tengja landið við Pablo Escobar
Stór hluti af Evrópubúum og Bandaríkjamönnum hugsa fyrst og fremst um Pablo Escobar og eiturlyf þegar talið berst að Kólumbíu. Sergio segir það sérstakt að einn glæpamaður sé nánast ímynd heils lands:
„Kólumbía er risastórt land með 50 milljón íbúum, með gríðarlega langa sögu og menningu. Þó að auðvitað hafi verið tímabil þar sem eiturlyf voru nánast undirstaða efnahags landsins, hefur það breyst gríðarlega. Það eru liðin nærri 30 ár síðan Pablo Escobar dó og þrjátíu ár eru mjög langur tími. En af því að Netflix gerði seríur um hann og bíómyndir um hann eru enn að koma út, er kannski eðlilegt að hugrenningarnar varðandi Kólumbíu mótist af því. En það getur orðið þreytandi. Þegar ég fór í fyrsta skipti til Evrópu fann ég það á eigin skinni. Ég var búinn að skoða allar reglur og var kominn til Spánar og ætlaði að fara í gegnum flugvöllinn. En um leið og ég sagðist vera frá Medellin í Kólumbíu upphófst mikið spurningaregn, sem virtist allt miða að því að ég væri tengdur glæpum og eiturlyfjum eingöngu vegna þess hvaðan ég kom. Eftir margra klukkutíma bið og endalaust af spurningum, þar sem ég missti af fluginu mínu til Barcelona var mér loksins sleppt. Miðað við annað í mínu lífi var þetta ekkert stórmál, en þetta segir kannski einhverja sögu um alhæfingarnar sem eiga sér stað um landið mitt og borgina mína.”
Hverfið sem Sergio ólst upp í er nú orðið að fyrirmynd fyrir önnur fátækrahverfi í Suður-Ameríku og víðar í heiminum, eftir mörg ár af uppbyggingu sem hefur heppnast vel:
„Hverfi 13 er núna orðið gríðarlega líflegur staður og í stað glæpa eru það núna fyrst og fremst listir sem einkenna hverfið. Um allt hverfið eru nú götulistamenn, íþróttamenn og dansarar og ferðamenn úr öllum heimshornum koma nú til að heimsækja hverfið. Stjórnvöld hafa ákveðið að gera börnum og unglingum sem alast upp í hverfinu kleyft að læra listir og íþróttir af færu fólki án þess að þurfa að borga neitt. Í stað þess að sjá glæpi sem einu leiðina úr fátækt eins og staðan var þegar ég var krakki, eru núna miklir möguleikar. Ég elska að sýna ferðamönnum hverfið mitt og er stoltur af því hvað er búið að gera. Eins og ég sagði í byrjun viðtalsins þakka ég fyrir lífið sem ég á alla daga. Mig dreymir um að gera einn daginn heimildarmynd um hverfið mitt, sem vonandi gæti orðið til þess að hvetja stjórnvöld annars staðar í heiminum til að gera svipaða hluti.”
Þáttinn með Sergio og Sölva og alla aðra Podcastþætti Sölva Tryggvasonar má nálgast inni á: Solvitryggva.is