Hjalti Vignis hefur alltaf haft áhuga á eldamennsku og grillmat, en fyrir nokkrum árum færðist aukin alvara í áhugamálið og árið 2017 stofnaði hann Facebook-hópinn Grillsamfélag Íslands með vini sínum, en hópurinn hefur í dag yfir 8.600 meðlimi, er mjög virkur og hefur átt stóran þátt í að stuðla að aukinni grillmenningu hér á landi. Hjalti hefur brennandi áhuga á grillmennsku og er stútfullur af þekkingu og góðum ráðum.

„Um þetta leyti jókst innflutningur á Weber-kolagrillum og ég var kominn með leið á grasgrilli og vildi alvöru bragð svo ég keypti grill og það vatt upp á sig,“ segir Hjalti. „Ég og Arnar Sigurðsson, vinur minn, vorum að spjalla saman um grillmenningu á Íslandi, sem var þá eiginlega ekki til og það varð til þess að við stofnuðum þennan hóp. Það vor var eldavélin svo bara tekin úr sambandi og allt grillað.

Tilgangur hópsins er að ræða um allt sem tengist grillum og þarna fær fólk svör við öllum sínum spurningum þegar kemur að grillmennsku, reykingu og ýmsu öðru,“ segir Hjalti. „Þetta er besta upplýsingaauðlindin sem þú finnur um grillmenningu á íslensku.“

Hjalti og Arnar vinur hans hafa líka gengið undir nafninu Grillfeðurnir.

„Þetta sumar sem við byrjuðum með hópinn var Nútíminn að leita að innslögum fyrir sumarið og hafði samband við okkur. Við smökkuðum sósur og sögðum til um hvað væri besta forkryddaða grillkjötið og svona. Innblásturinn að nafninu kom frá Godfather-myndunum,“ segir Hjalti. „Út frá þessu fórum við svo sjálfir að gera innslög og fórum í samstarf við hina og þessa á sama tíma og grillmenningin var að aukast. Þegar við byrjuðum var hvergi hægt að fá tomahawk-steik og enginn var að elda brisket, en það hefur mikið breyst. Ég tel að við höfum átt þátt í að stuðla að vexti þessarar menningar.“

Grillmatur bragðast betur

En hvers vegna finnst Hjalta svona gott að grilla?

„Ætli þetta sé ekki einhver grunneðlishvöt frá því þegar við bjuggum í hellum. Grillmatur bragðast líka bara betur en annar matur, það er vísindalega sannað, og kolagrillaður matur bragðast betur en gasgrillaður,“ segir hann kíminn. „Ég hef líka gaman af öllu stússinu. Það þarf að hafa áhuga og smá nördaskap til að standa í kolagrillmennsku og ég hef gaman af tilraunastarfsemi.

Hjalti er hættur að nota gasgrill og notar nú eingöngu kolagrill, því hann segir að það gefi einfaldlega betra bragð. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTONBRINK

Það fer svo bara eftir stuðinu sem maður er í hvað er skemmtilegast að grilla. Heilgrillaður kjúklingur á sunnudegi er geggjaður en það er líka gaman að gera kebab eða einhvern annan miðausturlenskan mat,“ segir Hjalti. „Það erfiðasta en um leið skemmtilegasta sem ég hef gert var þegar ég reykti brisket í fyrsta skipti. Þá ertu að elda kjöt í 10-14 klukkustundir og halda réttu hitastigi allan tímann. Mér finnst skemmtilegast að elda eitthvað sem þarf natni og ástríðu. Það er alveg sama hvað þú gerir, ef þú hefur ástríðu gerirðu það vel.“

Kol eða gas er smekksatriði

Hjalti segir að vilji fólk koma sér upp grilli sé það lítið mál.

„Ef þú ert bara með smá pláss einhvers staðar geturðu sett grill þar, en það er reyndar ekki vinsælt að vera með kolagrill á svölum í fjölbýlishúsi. Ef þú veist ekki hvað þú átt að fá þér mæli ég með að kíkja á Grillsamfélag Íslands, skoða og spyrja spurninga,“ segir hann. „Fyrst og fremst þarf að velja milli kola- og gasgrills og svo þarf að velta fyrir sér stærð, sem fer eftir því hvað á að elda fyrir marga. Úrvalið hefur aukist gríðarlega síðustu ár og það er til mikið af merkjum og margar tegundir af öllu.

Helsti munurinn á gasgrilli og kolagrilli, fyrir utan bragðið, er að það tekur enga stund að kveikja upp í gasgrilli, en það tekur svona 20 mínútur að fá hita í kolagrill og fólk telur sig oft ekki hafa tíma í það, en það er bara eins og að hita ofn,“ segir Hjalti. „Ef þú grillar mikið er líka heldur dýrara að grilla á kolagrilli, gasið endist yfirleitt lengur. En þetta er fyrst og fremst smekksatriði. Svo er fullt af fólki sem notar frekar gas á ferðalögum því það hentar betur, en er svo með kolagrill heima.“

Aldrei elda eftir tíma

Hjalti segir að það sé ýmislegt sem byrjendur þurfi að huga að.

„Það er alveg númer 1, 2 og 3 að elda aldrei eftir tíma, heldur nota kjöthitamæli og mæla hitann á kjötinu svo að hann sé eins og fólk vill,“ segir hann. „Svo þarf að hafa bursta, tangir og hanska, en þeir eru sérstaklega nauðsynlegir fyrir kolagrill. Sumir vilja líka hafa bjórstand, enda er grillmennskan oft afsökun til að opna einn kaldan. Svo er hægt að fara í alls konar aukahluti, pitsusteina, snúningssteina, vöfflujárn, wokpönnur, það er endalaust til.

Hjalti lætur vont veður ekki aftra sér frá því að grilla. MYND/AÐSEND

Viðhald er líka mjög mikilvægt,“ segir Hjalti. „Það þarf að tæma bakka af fitu, hreinsa innan úr grillinu og þrífa grindur eftir hverja notkun. Á Íslandi rignir líka á hlið, svo það borgar sig að vera með hlíf yfir grillinu.

Algengustu mistökin við grillið eru svo að nota of háan hita. Mér finnst gagnlegt að hugsa um grillið eins og ofn og stilla það á svipaðan hita,“ segir Hjalti.

„Reverse sear“ er vinsælt

„Það er mjög vinsælt núna að taka „reverse sear“ á steikur. Þá eldarðu þær á lágum og óbeinum jöfnum hita í byrjun og svo ferðu með grillið upp í 300-350 gráður rétt í lokin til að brenna kjötið og fá meira bragð,“ segir hann. „Ef þú ert með stóra steik og setur hana á of háan hita til að byrja með eldast kjötið hraðar að utan og þó að þú sért með mæli geturðu endað með stóran hluta af kjötinu „well done“ á meðan það er „medium rare“ í miðjunni. En með „reverse sear“ eldast þetta jafnara.

Það er líka vinsælt að taka stórar steikur og leggja kjötið beint á náttúruleg harðviðarkol, það gefur bragð sem er ekki hægt að lýsa,“ segir Hjalti. „Svo með tilkomu aukins framboðs af flottum grillum er fólk að gera fleiri tilraunir með reykingu, rif, pulled pork, brisket og annan amerískan grillmat. Það er komið rosa gott úrval af grillum sem bjóða upp á reykingu.“

Er að lifa drauminn

Hjalta hefur alltaf dreymt um að vera með matvagn, en nýlega ákvað hann að láta drauminn rætast og opnaði veitingastað með vini sínum.

„Staðurinn heitir Two Guys og er á Klapparstíg. Ég var í vinnu sem ég var kominn með leið á og vissi ekki hvað ég átti að gera. Ég kynntist smasshamborgurum fyrir sjö árum í Svíþjóð og það var eins og himnarnir opnuðust. Ég hafði samt aldrei fengið jafn góðan smasshamborgara á Íslandi. Svo ég sagði við konuna mína: Eigum við að opna smasshamborgarastað? og hún studdi hugmyndina,“ segir Hjalti. „Ég hafði samband við félaga minn sem er kokkur til að fá hann til að draga mig niður á jörðina, en honum fannst þetta frábær hugmynd, svo við ákváðum að gera þetta af fullum krafti. Í versta falli myndi það klikka, en þá fengi ég að upplifa drauminn. En svo er þetta ekkert að klikka, þannig að ég er að lifa drauminn.“


Áhugasamir geta fylgst með Hjalta á Instagram undir nafninu grillarinn_a_pallinum. Grillfeðurnir eru líka á Snapchat undir nafninu grillfedurnir.