Saksóknari í Flórída hefur birt myndband sem sýnir slagsmál Court­n­ey Clenney, 25 ára áhrifavalds og OnlyFans-stjörnu, og kærasta hennar Christian Obumseli.

Slagsmálin áttu sér stað í lyftu að íbúð þeirra í Miami í febrúarmánuði, en tveimur mánuðum síðar fannst Christian látinn í íbúðinni. New York Post og Rolling Stone fjalla um málið.

Court­n­ey hefur verið á­kærð fyrir morðið Christian. En í gær var greint frá því að hún hafi verið hand­tekin á Hawaii og bíði þess nú eftir því að verða fram­seld til Flórída. Lögmaður hennar, Frank Prieto, hefur haldið því fram að hún hafi stungið kærastan sinn í sjálfsvörn, eftir að hann kastaði henni í jörðina.

Kathie Fernandez-Rundle, saksóknari í Flórída birti myndbandið sem um ræðir og sagði: „Það lítur svo sannarlega út fyrir að sakborningurinn hafi ráðist á Christian með harðfylgi.“

Samkvæmt saksóknaranum á myndbandið að sýna að Courtney og Christian hafi verið í ofbeldissambandi, þar sem hún hafi verið gerandinn. „Ég held að [myndbandið] sé til marks um hvernig þetta samband var, og hver var gerandinn í því.“

Verjandi Courtney er á öðru máli. „Það er skömmustulegt að saksóknari ætli sér að vinna málið á dómstólum götunnar með því að sýna óviðkomandi myndband af Courtney og líkamlegum átökum hennar við Obumseli,“ sagði Prieto og bætti við að myndbandið myndi ekki segja alla sólarsöguna.

„Obumseli var gerandinn, versta gerð geranda. Hann átti það til að niðurlægja og misnota Courtney þegar þau voru ein og hann hélt að engin væri í kring,“ sagði hann jafnframt.