Páll Magnús­son, al­þingis­maður og fyrr­verandi út­varps­stjóri, segist telja það lík­legt að Sam­tök evrópskra sjón­varps­stöðva (EBU) muni meina Ís­landi þátt­töku í Eurovision á næsta ári og jafn­vel árið á eftir vegna upp­á­tækis Hatara í keppninni en Páll var til við­tals um málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Eins og al­þjóð veit tóku liðs­menn Hataraupp fána Palestínu þegar at­kvæði Ís­lands voru kunn­gjörð í beinni út­sendingu á laugar­dags­kvöld. EBU hefur áður sagt að muni koma til af­leiðinga fyrir Ís­land vegna málsins og Páll telur svo vera.

„Þetta auð­vitað er þannig að ríkis­út­varpið undir­gengst á­kveðna skil­mála og lætur sömu­leiðis sína full­trúa, það er að segja kepp­endur, undir­rita slíka skil­mála líka. Þannig að bæði RÚV og Hatari hafa skuld­bundið sig til að vera ekki með pólitískar yfir­lýsingar í tengslum við keppnina,“ segir Páll.

EBU muni vilja sýna for­dæmi

Hann segist að vissu leyti skilja hvers vegna reglurnar um pólitískar yfir­lýsingar séu jafn strangar og raun ber vitni í keppninni. „Mín per­sónu­lega skoðun kemur þessu máli ekkert við, menn geta veifað þeim fánum sem þeir vilja þess vegna en hins­vegar getur maður alveg í­myndað sér það að ef menn fara að gefa eftir varðandi pólitískar yfir­lýsingar í keppninni gæti maður í­myndað sér hvernig hún myndi líta út, ef þetta væri bara keppni í pólitískum yfir­lýsingum en ekki tón­list,“ segir Páll.

Hann segir lík­legt að EBU muni því bregðast við til að sýna fram á að slíkt verði ekki liðið í keppninni. „Þannig mér finnst nú ekkert ó­lík­legt að EBU grípi til ein­hvers­konar viður­laga í þessu, þó ekki væri til annars en að sýna for­dæmi um það að þetta sé ekki liðið og svo verða menn bara að sjá í hverju það er fólgið,“ segir Páll.

Páll segir himinn og haf ekki myndi farast þó Ís­land myndi ekki taka þátt og bendir meðal annars á að Ítalía og Þjóð­verjar hafi hætt þátt­töku á tíma­bili.

Hatari mögu­lega meinað að taka þátt í Söngvakeppninni

Þá segir Páll að mögu­lega verði Hatara meinað að taka þátt að nýju, að minnsta kosti um tíma­bil. „Það var að minnsta kosti þannig að þeir skuld­binda sig til að fylgja þeim reglum sem RÚV er gert að fram­fylgja,“ segir Páll. „Ríkis­út­varpið er á­byrgt gagn­vart EBU um að reglunum sé fram­fylgt. EBU beitir því flytjandann engum viður­lögum en myndi beita RÚV.

Ég get ekki í­myndað mér að það hafi neinar af­leiðingar fyrir flytjandann nema að því leytinu til að RÚV gæti væntan­lega ekki sætt sig við að þeir taki þátt aftur í keppninni hérna heima því þeir hafi þá gengið á svig við það sam­komu­lag sem þeir hafa gengist á við með ríkis­út­varpinu,“ segir Páll.

„Hins­vegar er það á hreinu gagn­vart EBU að það er RÚV sem er á­byrgt fyrir því að flytj­endur hagi sér í sam­ræmi við þær reglur sem RÚV hefur undir­gengist,“ segir Páll. Spurður að því hvort EBU muni víkja okkur úr keppni segist Páll gera ráð fyrir því að EBU muni grípa til ráð­stafanna.

„Ég geri ráð fyrir því að EBU muni láta finna fyrir sér. Þetta snýr annars­vegar að RÚV, ef það treystir sér ekki til að fram­fylgja þeim reglum sem það hefur sjálft undir­gengist er miklu hrein­legra að hætta í keppninni heldur en að brjóta þessa skil­mála.

EBU hlýtur með ein­hverjum hætti að fylgja þessu eftir með býsna af­gerandi hætti, því annars væru þeir búnir að missa það úr höndunum á sér hvernig þessu er fram­fylgt. Ætli við förum ekki í leik­bann, kannski einn leik eða tvo, eða mér finnst það alla­vega lík­legt.“