Fjöldi íslensks kvikmyndagerðarfólks hefur lært við hinn virta tékkneska kvikmyndaskóla FAMU sem verður í brennidepli á Arctic Festival í Reykjavík á sunnudaginn þegar skólaverkefni sjö Íslendinga verða sýnd í Bíó Paradís.

Þorgeir Þorgeirson, Þorsteinn Jónsson, Grímur Hákonarson, Silja Hauksdóttir, Örvar Þóreyjarson, Haukur Már Helgason og Börkur Gunnarsson eru meðal þeirra íslensku leikstjóra sem hafa lært í FAMU í gegnum árin.

Chrysalis eftir Eydísi Eiri Brynju-Björnsdóttur er nýjasta myndin sem verður sýnd á sunndaginn, frá 2021.

Áhrifa skólans gætir væntanlega einnig í kvikmyndanámi á Íslandi þar sem Börkur, sem er settur rektor Kvikmyndaskóla Íslands, og Steven Meyers, deildarforseti kvikmyndadeildar Listaháskóla Íslands, lærðu báðir í FAMU.

Börkur á góðar minningar frá FAMU og Tékklandi.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Ég dýrka þetta land og ætlaði að setjast þarna að,“ segir Börkur sem fann talverðan skyldleika með tékkneskri þjóðarsál og þeirri íslensku. „Þeir eru þarna mitt á milli risaveldanna, Rússa í austri, og Þjóðverja í vestri, sem eru bara alltaf að reyna að sigra allan heiminn og leggja allt undir sig. Tékkar eru náttúrlega smáþjóð á milli þessarra skelfilega vöðva­trylltu risa og eru með svolítinn Svejk fílíng í sér.“

Haukur Hallsson gerði MÍR: Hundred Years of Revolution 2020.

Börkur stundaði nám í tékknesku deild skólans upp úr aldamótum og segir skólann þá hafa verið með þeim allra bestu og hann gerir ekki ráð fyrir að það hafi mikið breyst þótt hann hafi ekki fylgst mikið með skólanum síðustu ár.

Sérstök sýning verður í Bíó Paradís klukkan 11.30 á sunnudaginn á sjö skólaverkefnum íslenskra kvikmyndagerðarmanna frá FAMU í gegnum tíðina. Sýningin kallast FAMU Alumni presents og er hluti af Arctic Festival í Reykjavík.