Margrét útskrifaðist úr Myndlistardeild LHÍ árið 2010. Ári eftir það hélt hún eina einkasýningu og tók þátt í nokkrum samsýningum en árið 2012 flutti hún ásamt fjölskyldunni til Tókýó og ferðaðist um heiminn næstu þrjú árin.

„Á þessum tíma þurfti ég að aðlaga myndlist mína að þessum kringumstæðum. Ég var með dóttur mína allan sólarhringinn og var ekki með vinnustofu. List mín þurfti því að vera vistvæn innan um eigur annarra. Það leiddi til þess að ég vann töluvert með ljósmyndir sem ég afbakaði og vann með í Photoshop,“ segir Margrét.

Undanfarin fimm ár hefur fjölskyldan svo búið í San Francisco en þau fluttu heim í sumar vegna faraldursins.

„Myndlist mín er það eina sem ég hef tiltölulega mikla stjórn á í lífinu. Hún er það eina sem stendur og situr með mér og stundum í mér. Ég held að mjög lengi hafi hún hjálpað mér að vinna í gegnum áföll og að tengjast fólki,“ útskýrir Margrét.

„Fyrir þremur árum hóf ég eitthvert undarlegasta og torfarnasta ferðalag sem ég hef lagt í sem snýr að tilfinningum mínum og öllum þeim varnarmúrum sem hafa hlaðist í kringum mig vegna hinna og þessara áfalla í gegnum tíðina. En ferðalagið byrjaði á því að ég hlustaði á mann sem talaði um að lækna tilfinningaleg sár.“

Margét segir að í fyrstu hafi hún haldið að þetta væri einhver þvæla en eftir að hún hlustaði á fyrirlestra mannsins, sem heitir Artie Wu, varð hún ekki söm.

„Þetta var stórundarlegt. Í smá tíma hætti ég að upplifa sjálfa mig sem ekki nóg. Raddirnar sem stjórnuðu tilfinningalífi mínu til þessa þögnuðu og ég kom betur fram við sjálfa mig og þar af leiðandi fólkið mitt. Ég nálgaðist myndlistina öðruvísi. Ég vildi ekki vera sniðug eða fyndin eða djúp. Ég strípaði allt niður þar til ekkert var eftir nema einhvers konar pulsa. Ég teiknaði pulsu eftir pulsu með mjúkum þurr-pastellitum og leiraði þær í polymer-leir. Tilfinninga-pulsur. Þær voru mjúkar, hlýjar, kvenlægar, jónískar og sögðu allt sem segja þurfti,“ útskýrir Margrét.

Á sama tíma fór Margrét að gera tilraunir með textíl og heillaðist af textílheiminum. Að hluta til vegna þess að hann tengist hugmyndafræðilega mörgum af hennar femínísku hugleiðingum en að stórum hluta vegna þess að henni fannst textílmenningin svo falleg.

„Áður en ég vissi voru myndirnar farnar að komast á nýtt flækjustig og textílverkin orðin stór og sum unnin með flosbyssu og þessi stóíska ró sem ég fann við fyrstu pulsuna var farin og yfirtók mig þess í stað blússandi dans,“ segir Margrét.

Hún segir að teikningin sé henni þó alltaf hjartkærust og það sem haldi henni á floti flesta daga. Hún er með tourette og komst að því nýverið að þegar hún teiknar er hún ekki með kæki.

„Ég geri alls konar hljóð og hreyfikæki. Finnst ég iðulega vera að flækjast í fólki ef það labbar í kringum mig og þarf að gera alls konar óútskýranlegar kúnstir til þess að heimurinn hreinlega farist ekki. Yfirleitt tekst mér að bæla þetta niður ef ég er ekki afslöppuð í kringum fólk, maðurinn minn hlær þegar ég held þessu fram og er ekki alveg sammála, en um leið og ég fer að slaka aðeins á þá koma kækirnir fram,“ segir Margrét.

„Mér finnst vera heilmikil tónlist í kækjunum og þessa tónlist sé ég í verkunum líka. Svolítið svona kviss búm rat tat tat bamm, TVIST. Eitthvert verður þessi tónlist að fara.“

Í haust sýndi Margrét tilfinningaverkin hjá Gallerí Fold sem henni fannst mjög gaman, þrátt fyrir faraldursástand.

„Núna er hægt að næla sér í eftirprentanir hjá Fold af þurrpastel-verkunum. Allur minn ágóði af þeim rennur til góðgerðarmála og sömuleiðis ætlar Fold að gefa til góðgerðarmála.“