Myndasöguhöfundurinn Árni Jón Gunnarsson teiknaði á dögunum mynd af Villa Neto, í framhaldi af skemmtilegri áskorun á Twitter.

Eins og frægt er orðið hefur skemmtikrafturinn Villi Neto lýst yfir áhuga á að kynna stigin í Eurovision. Málið á rætur sínar að rekja til ársins 2018 þegar keppnin fór fram í Portúgal, en Villi er hálf portúgalskur. RÚV hefur ekki ennþá orðið við þeirri ósk. Það er þó aldrei að vita nema að óskin rætist einhvern tímann. Áhugi landsmanna á málinu hefur gengið svo langt að settur var af stað undirskriftalisti á aktívistasíðunni Change.org.

Þangað til geta lesendur Fréttablaðsins virt fyrir sér teikningu Árna Jóns og velt fyrir sér, hvað ef?

Teikning Árna Jóns Gunnarssonar af Villa Netó að kynna stigin, mynd sem hann teiknaði fyrir Twitter-notendur á dögunum.
Mynd/Árni Jón Gunnarsson