Bandaríska söngkonan Taylor Swift kom aðdáanda sínum til bjargar á dögunum þegar hún lagði inn á PayPal reikning hennar 6,386 kanadíska dollara, eða um 596.000 íslenskar krónur. Fréttavefurinn Independent greinir frá.

Ayesha Khurram, ungur nemi frá Toronto í Kanada, lísti nýverið yfir fjárhagsáhyggjum sínum í myndbandi sem hún birti á samfélagsmiðlum. Þar sagði hún frá því hversu erfitt væri að ná endum saman ásamt því að foreldrar hennar væru bæði launalág og að móðir hennar þjáðist af krónískum nýrnasjúkdómi. Einnig ræddi Ayesha um það hversu erfitt það væri henni að borga leigu og skólagjöld.

Tveimur tímum eftir að hún birti myndbandið hafði greiðslan frá Taylor Swift borist á reikning hennar.

„Ég setti inn myndband um að ég væri í vandræðum með að borga skólagjöldin. Tveimur tímum seinna fæ ég tölvupóst með þessum skilaboðum og ég get ekki hætt að gráta. Ég á ekki orð, engin orð, ég get ekki hætt að gráta,“ segir Ayesha.

Í skilaboðunum frá Taylor sendir hún Ayesha hvatningarorðin „Haltu áfram að læra stelpa. Ég elska þig! Taylor.“

Ayesha Khurram, deildi mynd á Instagram síðu sinni þar sem hún greindi frá góðverki Taylor.