Bandaríska poppsöngkonan Taylor Swift gaf frá sér glænýtt tónlistarmyndband við lagið The Man sem kom fram á nýju plötu hennar Lover. Tónlistarmyndbandið birtist í dag en Taylor hefur verið að telja niður að birtingu á Instagram síðu sinni.

Taylor Swift ákvað að gerast dragkóngur fyrir myndbandið og klæddist gríðarlega raunverulegu gervi sem ungur karlmaður. Hún klæðist jakkafötum, situr í gleiðri stöðu í lest, pissar á vegg og fær útnefningu sem besti pabbi í heimi fyrir það eitt að halda á barni sínu.

Skot á Scooter Braun?

Söngkonan er þekkt fyrir að skilja eftir vísbendingar í myndböndum sínum. Karlinn, sem Taylor leikur í myndbandi, pissar á vegg þar sem búið er að krota á nöfnin á plötum Taylor Swift sem eru enn í eigu Scooter Braun, sem keypti Big Machine útgáfuna. Plaggat sést á veggnum þar sem óskað er eftir því að plötunum sé skilað til söngkonunnar.

Taylor leikstýrði myndbandinu sjálf. Hún greindi frá þessu á Istagram „story“ hjá sér í dag.

Fyrir og eftir.
Mynd/Skjáskot

Taylor er að sjálfsögðu ekki fyrsta söngkonan til að prufa drag fyrir tónlistarmyndband. Lady Gaga vakti mikla athygli á sínum tíma fyrir persónuna Joe Calderone í myndbandinu við lagið You and I.

Nýjasta plata söngkonunnar sem ber heitið Lover eða Elskhugi og náði strax fyrsta sæti Billboard 200 listans eftir að hún kom út. Lover seldist í rúmum 679.000 eintökum á einni viku samkvæmt Billboard og er hún er sjötta plata söngkonunnar sem nær fyrsta sæti listans. Taylor fyrst allra kvenna sem selt hefur sex plötur í yfir 500.000 eintökum á einni viku.

Hér fyrir neðan má sjá tónlistarmyndbandið við The Man í heild sinni.