Dómari í Los Angeles hefur vísað frá frá­vísunar­beiðni söng­konunnar Taylor Swift vegna máls­höfðunar henni á hendur vegna meints stulds á texta. Hún þarf því að mæta fyrir rétt þar sem skorið verður um hvort hún hafi hermt eftir texta lagsins Playas Gon' Play eftir hljóm­sveitina 3LW í laginu Shake It Off.

Texta­brotin sem málið snýst um eru „players gonna play“ og „haters gonna hate“.

Hljóm­sveitin 3LW naut nokkurra vin­sælda við upp­haf aldarinnar.
Mynd/YouTube

Michael W. Fitz­gerald héraðs­dómari hafði áður hafnað að taka málið fyrir þar sem textinn sem um ræðir væri of „margtugginn“ svo hægt væri að telja hann höfunda­réttar­varin. Í fyrri úr­skurði sínum tók hann þrettán dæmi um lög sem inni­héldu svipaða frasa, þar á meðal Playa Hater með rapparanum Notorious B.I.G. og Dreams eftir Fleetwood Mac. Þetta kemur fram í frétt BBC.

„Snemma á fyrsta ára­tug aldarinnar var popp­menning nægi­lega gegn­sýrð af hug­myndum um leik­menn og hatara til þess að gera frasana 'playas...gonna play' eða 'haters...gonna hate' séu al­mennt, ekki meiri sköpunar­verk en 'runn­ers gonna run'; 'drummers gonna drum'; eða 'swimmers gonna swim', skrifaði dómarinn er hann hafnaði að taka málið fyrir á sínum tíma.

„Sú hug­mynd að fólk hagi sér í anda þess sem er því eðlis­lægt er ekki hug­mynda­ríkt, það er margtuggið. Til að draga þetta saman, er textinn sem um ræðir of stuttur, ó­frum­legur og ó­hug­mynda­ríkur svo hann sé verndaður af lögum um höfundar­rétt.“

Dag­setning réttar­haldanna hefur ekki verið á­kveðin.
fréttablaðið/getty

Þessu á­frýjuðu laga­höfundar Playas Gon' Play, Sean Hall og Nat­han Butler, og al­ríkis­á­frýjunar­dóm­stóll féllst á á­frýjunina. Þá kom málið aftur á borð Fitz­gerald dómara og fóru lög­menn Swift fram á að dæmt yrði í málinu sam­stundis um hvort hún hefði brotið höfunda­réttarr­lög en því hafnaði hann í gær. Dag­setning réttar­haldanna hefur ekki verið á­kveðin.

„Þrátt fyrir að ber­sýni­legur munur sé á verkunum eru einnig það mikil líkindi í orða­notkun og röð/upp­bygging,“ skrifaði hann og bætti við að „dómurinn getur ekki að svo komnu máli skorið úr um hvort enginn sann­gjarn kvið­dómandi gæti fundið um­tals­verð líkindi í texta­notkun, orða­röð eða skáld­legri upp­byggingu verkanna tveggja.“ Lög­menn Hall og Butler fagna á­kvörðuninni og segja að rétturinn hafi „gert það rétta í stöðunni.“