Bandaríska poppstjarnarn Taylor Swift hefur verið ákærð af eigendum skemmtigarðs í Utah-fylki fyrir brot á höfundarétti vegna titilsins á nýjustu plötu hennar, evermore.

Skemmtigarðurinn heitir Evermore Park og er samkvæmt vefsíðu þeirra. „Veröld fyrir alla aldurshópa, þar sem hægt er að sökkva sér ofan í evrópskan fantasíu heim ímyndunaraflsins.“ Af myndum að dæma er þetta þemagarður sem einblínir á miðaldir, galdra og ýmsa vætti. Gestir geta gengið um fallega garða og heimsótt krúttlega kofa og kynnst persónum sem lifa í heimi Evermore Park.

Þá mætti segja að margt við garðinn minni á stílinn og þær tilfinningar sem nýjasta plata Swift vekur upp þó það sé ólíklegt að textahöfundur eins og Taylor Swift myndi byggja plötu sína á lítt þekktum skemmtigarði í Utah.

Líkt og aðdáendur vita hefur Taylor Swift aldeilis ekki setið auðum höndum í kórónaveirufaraldrinum en hún gaf út tvær plötur á árinu 2020, folklore og evermore.

Hún samdi lögin og vann að gerð platnanna meðan hún var í sjálfskipaðri einangrun í bústað og sótti innblástur í kvikmyndir á borð við Pan's Labyrinth og Jane Eyre og bækurnar Rebecca eftir Daphne du Maurier og Pétur Pan eftir J. M. Barrie. Hún vann tónlistina með Jack Antonoff og Aaron Dessner, forsprakka hljómsveitarinnar The National.

Eigendur Evermore Park segja að fjölmargir gestir þeirra telji að garðurinn tengist plötu Taylor Swift. Þau hafi eytt mörgum milljónum dollara í að byggja upp garðinn og skrá vörumerkið Evermore og eigi því einkarétt á notkun á merkinu og nafninu.

Lögmenn Swift gefa lítið fyrir ákæruna og segja eigendur garðsins hafa ekki tapað neinu við útgáfu plötunnar. Þeir hafi frekar grætt á þeirri aukinni athygli sem garðurinn hefur fengið eftir að platan kom út.